Bylgja samruna í ferðaþjónustu

Eggert B. Ólafsson

Báran sjaldan ein er stök þegar um samþjöppun er að ræða í hinum ýmsu atvinnugreinum. Það er algengt þegar tilkynningarskyldur samruni verður í atvinnugrein þar sem samrunar hafa verið sjaldséðir að aðrir samrunar fylgi í  kjölfarið innan sömu atvinnugreinar. Svona hefur þetta t.d. verið á markaði fasteignafélaga og í útgerð og fiskvinnslu og núna virðist vera hafin bylgja samruna í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Bylgjuhreyfingin byrjaði þó sennilega fyrir um einu ári  þegar fór að bera á kaupum fjárfestingafélaga í ferðaþjónustu. Eldey fjárfestingssjóður á vegum Íslandssjóða keypti í Norðursiglingu á Húsavík um mitt síðasta ár og um haustið keypti fjárfestingasjóðurinn Horn III Hagvagna og Hópbíla. Í sumar höfum við svo fengið fréttir af sameiningum fyrirtækja sem sérhæfa sig í sölu á upplifunarferðum eins og jöklaferðum, flúðasiglingum, fjallgönguferðum auk hefðbundinna skoðunarferða (samruni Extreme Iceland og Artic Adventures). Í síðustu viku var tilkynnt um yfirtöku Iceland Travel á Gray Line og nú í þessari viku var sagt frá því að Eldey og Íslenskir fjallaleiðsögumenn væru að kaupa meirihluta í Arcanum ferðaþjónustu.

Afskipti Samkeppniseftirlitsins af þessum samrunum.

Það er athyglisvert hve fjölbreyttir þessir samrunar eru að gerð, þ.e.a.s. bæði er um samsteypusamruna að ræða, (fjárfestingafélag + ferðaþjónustufyrirtæki) lóðrétta samruna (Iceland Travel + Gray Line) og lárétta samruna eins og í tilviki Extreme Iceland og Artic Adventures.

Að því er samsteypusamrunana varðar og yfirtökur á fyrirtækjum í raunhagkerfinu af hálfu fjárfestingafélaga eða fjárfestingasjóða, sem bankar og lífeyrissjóðir standa á bak við, er það orðið „standard practice“ hjá Samkeppniseftirlitinu að setja slíkum samrunum skilyrði. Það var gert þegar Horn III náði yfirráðum í  Hagvögnum og Hópbílum og það mun einnig verða gert núna vegna samruna Eldeyjar- Fjallaleiðsögumanna og Arcanum, þ.e.a.s. ef samruninn er af tilkynningarskyldri stærðargráðu. (Samruni er tilkynningarskyldur til  Samkeppniseftirlitsins ef  velta samrunaaðila nær 2 milljörðum króna  samtals og  velta eins (annars) samrunaaðilanna nær a.m.k. 200 milljónum króna). Skilyrðin sem Samkeppniseftirlitið setur orðið yfirtökum fjárfestingasjóða ganga einkum út á að tryggja að hin yfirteknu fyrirtæki verði stjórnunarlega og stjórnskipulega óháð eigendum sínum og að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar berist  ekki vegna eignarhaldsins til keppinauta, birgja eða viðskiptavina yfirtekna fyrirtækisins.

Það er sameiginlegt samsteypusamrunum og lóðréttum samrunum að almennt hafa þeir síður í för með sér samkeppnisleg vandkvæði heldur en láréttir samrunar. Þó geta hinir fyrrnefndu skapað hættu á upplýsingaleka, (eins og í tilvikum fjárfestingafélaga sem eiga í mörgum félögum og/eða þar sem samþjöppun hefur orðið í eignarhaldi) eða útilokun keppinauta frá markaði ef markaðshlutdeild beggja samrunaaðila er há á viðkomandi mörkuðum.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver markaðshlutdeild Iceland Travel og Gray Line er á þeim mörkuðum sem þessi fyrirtæki eru. Það er því erfitt að segja fyrir um hvaða augum Samkeppniseftirlitið muni líta þann samruna. Vegna annarra atriða sem litið er til við mat á samrunum (sem of langt mál væri að gera grein fyrir í stuttum pistli) á undirritaður þó síður von á að Samkeppniseftirlitið hafi afskipti af yfirtökunni, jafnvel þótt markaðshlutdeild Iceland Travel reynist vera töluverð á markaði skipulagðra hópferða/skoðunarferða.