Samkeppnismál – Ýmsar greinar

Agnúi sniðinn af samkeppnislögum

Fyrir nokkru var birt hér á þessari síðu (S@mkeppnisráðgjöf.is) grein þar sem bent var á  ósamræmi á milli samkeppnisreglna EES samningsins (EES samningurinn, l. nr. 2/1993) og íslenskra samkeppnislaga. (Samkeppnislög nr. 44/2005). ( Sjá færslu 27. okt 2019)

Ósamræmið fólst í því að lögmæti samstarfssamninga fyrirtækja gat ráðist af því hvort (i) samkeppnisreglur EES samningsins næðu yfir samstarfið ásamt íslenskum samkeppnisreglum eða (ii) hvort íslenskar samkeppnisreglur tækju „einungis“ til samstarfsins vegna þess að viðkomandi samningur hefði ekki áhirf á viðskipti milli aðildarríkja EES samningsins.  

Samkvæmt samkeppnisreglum EES samningsins er það ekki forsenda fyrir lögmæti samstafssamninga fyrirtækja sem takmarka samkeppni með einhverjum hætti, en uppfylla þó undaþágu skilyrði þeirra,  að þeir séu tilkynntir til samkeppnisyfirvalda (Framkæmdastjórnar ESB, Efitirlitssofnunar EFTA eða samkeppnisstofnunar viðkomandi lands).  Þar til í sumar gerðu  íslensk samkeppnislög hins vegar ekki ráð fyrir að samkeppnishamlandi samstarfssamningur gæti verið lögmætur án tilkynningar til Samkeppnsieftirlitsins og jákvæðrar afgreiðslu slíkrar tilkynningar. Lögsaga samkeppnisreglna EES samningsins ræðst af því  hvort samningur hafi áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EES svæðisins og túlkun  hugtaksins „áhrif á viðskipti“ er víð og samkvæmt EES rétti er aðildarríki óheimilt að beita strangari innlendum samkeppnisreglum um samninga en gildir samkvæmt EES reglum þegar þær eiga við. Allt frá gildistöku samkeppnislaga hefur því ríkt réttaróvissa um lögmæti samstarfssamninga, einkum þeirra sem ekki hafði verið tilkynnt um til Samkeppnsieftirlitsins. Þessari réttaróvissu mun hins vegar linna 1. janaúar 2021 þegar 4. gr. laga nr. 103/2020, sem breytir 15. gr. samkeppnislaga, tekur gildi  

Svona hljóðar 1. mgr 15. gr. samkeppnislaga:

„Samkeppniseftirlitið getur veitt undanþágu frá [bann]ákvæðum 10. og 12. gr. Skilyrði slíkrar undanþágu eru að samningar, samþykktir, samstilltar aðgerðir eða ákvarðanir skv. 10. og 12. gr.:
    a. stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir,
    b. veiti neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst,
    c. leggi ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og
    d. veiti fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.

Í stað þessarar málsgreinar (og 3. mgr. ákvæðisins) kemur ný málsgrein sem hljoðar svo:

„Bann skv. 10. og 12. gr. gildir ekki ef samningar, samþykktir, samstilltar aðgerðir eða ákvarðanir fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja:

stuðla að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efla tæknilegar og efnahagslegar framfarir,

veita neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst,

leggja ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og

veita fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.“ 4. og 16. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2021.

Áskilnaðurinn um undanþágu frá  Samkeppniseftirlitinu fyrir samningum á  forsendum skilyrðanna fjögurra  er því ekki lengur fyrir hendi. Þetta leggur þá ábyrgð á herðar fyrirtækjum sem eru í samstarfi við eða hyggja á samstarf við keppniauta, birgja eða viðskiptavini að þau meti sjálf  hvort  viðkomandi  samningur uppfyllir öll skilyrðin fjögur. Það hafa fyrirtæki í öðrum löndum innan EES svæðisins þurft að gera í tæp 20 ár.

Eggert B. Ólafsson

—————————————————

Samrunaeftirlit SE er ekki bundið víð íslensk fyrirtæki.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í samrunamáli tveggja erlendra félaga AerCap Holdings N.V. og International Lease Finance Corporation frá  10. febrúar  2014  minnir á að það er ekki skilyrði fyrir lögsögu íslenskra samkeppnisyfirvalda í samrunamálum að eitt eða fleiri íslensk fyrirtæki eigi í hlut. Skilyrðin fyrir lögsögu Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum eru þrjú, tvö „jákvæð“ skilyrði og eitt „neikvætt“. Jákvæðu skilyrðin eru (i) að  sameignleg velta viðkomandi fyrirtækja á Íslandi nái einum milljarði króna og (ii) samruninn hafi samkeppnisleg áhrif á Íslandi í skilningi 17. gr. samkeppnislaga. „Neikvæða“ skilyrðið er að framkvæmdastjórn ESB eigi ekki lögsögu um samrunann því lögsaga ESB útilokar lögsögu Samkeppniseftirlitsins, nema til framvísunar máls komi.  Sama gildir hafi Eftirlitsstofnun EFTA lögsögu. Það er þó aðeins fræðilegur möguleiki að samrunamál geti komið til kasta ESA. Sá fræðilegi möguleiki kan hins vegar að verða raunhæfur núna að því er flugið varðar eftir þann ævintýraleaga vöxt sem hefur verið á íslensku flugfélögunum síðutsu misseri.

Fyrrgreind ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er áminning um að full ástæða er fyrir íslensk fyrirtæki sem eiga í beinni eða óbeinni samkeppni við erlend fyrirtæki á íslenskum markaði eða sem selja/kaupa vörur eða þjónustu af erlendum fyrirtækjum hér á landi, til að fylgjast með erlendum samrunum og vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því ef samruni á sér stað á milli tveggja erlendra fyrirtækja sem íslenska fyrirtækið telur að geti hindrað samkeppni hér á landi. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú að eftirlit með samrunum á vettvangi ESB (og eftir atvikum á grundvelli EES samningsins) tekur að jafnaði aðeins til „mega“ samruna, þar sem heimsvelta þarf annað hvort að ná EUR 5000 milljónum, (jafngildi ríflega 750 milljarða króna) eða EUR 2.500 milljónum, (jafngildi 375 milljarða króna). Það fer eftir því hvernig veltan dreifist á milli landa og fyrirtækja hvort viðmiðið framkallar tilkynningarskyldu. Í raun geta því allir samrunar í heiminum sem eru undir 375 milljörðum króna heimsveltu og jafnvel margir sem eru undir 750 milljarða veltumörkunum, fallið undir lögsögu Samkeppniseftirlitsins ef viðkomandi samruni getur haft þau áhrif hér landi að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Dæmi: Tvö stór erlend fyrirtæki selja vörur sínar (samkeppnisvörur – tvö mismunandi vörumerki) til Íslands í gegnum tvo íslenska söluaðila. Markaðshlutdeild þessara íslensku söluaðila  er samtals um 70%. Við sameiningu erlendu fyrirtækjanna gæti verið hætta á að öðrum íslenska aðilanum yrði falið að annast söluna á Íslandi að öllu leyti og markaðsráðandi staða yrði til. Ef Samkeppniseftirlitið vissi af þessari hættu gæti það á grundvelli  gildissviðs íslenskra samkeppnislaga að því er varðar samrunamál sett það skilyrði fyrir að leyfa samrunann að á Íslandi yrði einum og sama aðilanum ekki falið að selja bæði vörumerkin.

Eggert B. Ólafsson

—————————————–

Samkeppnismál Fyrirtæki starfandi undir skilyrðum Samkeppniseftirlitsins

Sífellt fjölgar þeim fyrirtækjum og fyrirtækjasamtökum sem starfa undir sérstökum skilyrðum settum af Samkeppniseftirlitinu. Í vissum skilningi starfa öll fyrirtæki undir skilyrðum í samkeppnislegu tilliti, það er að segja, þeim ber að virða samkeppnislög. Sérstök skilyrði – skilyrði umfram það sem leiðir beint af samkeppnislögunum – koma hins vegar til sögunnar í samrunamálum, samkeppnisbrotamálum og undanþágumálum sem lokið er á grundvelli sáttar við Samkeppniseftirlitið.

Nýjasta samrunamálið þar sem samruni var leyfður með skilyrðum er samruni Eldeyjar TLh á Arcanum ferðaþjónustu ehf. (Ákvörðun SE nr. 44/2017). Hin samkeppnislegu vandkvæði þess samruna stöfuðu einkum af óbeinni aðkomu Íslandsbanka að samrunanum en Eldey er fjárfestingarsjóður í eignastýringu hjá Íslandssjóðum. Eldey einbeitir sér að fjárfestingum í ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir fagfjárfesta í viðskiptum við einkabankaþjónustu Íslandsbanka. Skilyrðin sem Samkeppniseftirlitið setti samrunanum lúta að þremur þáttum: (i) sjálfstæði Arcanum gagnvart Íslandsbanka, (ii) óhæði stjórnarmanna Arcanum að því er varðar keppinauta og (iii) að samkeppni á þeim mörkuðum sem Arcanum starfar sé ekki raskað ekki upplýsingamiðlun til hluthafa í Eldey sem einnig eiga hlut í keppinautum Eldeyjar. Athyglisvert er að óhæðisskilyrðið tekur ekki til mikilvægra viðskiptamanna Arcanum.

Sjá:

http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2017/Akvordun_44_2017_Breyting-a-yfirradum-Arcanum-ferdathjonustu-ehf.pdf

Nýjasta samkeppnisbrotamálið þar sem Samkeppniseftirlitið setti hinum brotlega skilyrði er mál Félags fasteignasala (FF) vegna ólögmæts verðsamráðs,(Ákvörðun SE nr. 43/2017). Auk greiðslu sektar uppá 6 milljónir króna, skuldbatt FF sig til að sjá til þess að í starfsemi félagsins væri stuðlað að viðskiptalegu sjálfstæði aðildarfyrirtækjanna (en ekki hinu gagnstæða) þannig að samkeppni verði ekki raskað og til að leggja sérstaka áherslu á að fræða fasteignasala um samkeppnismál. Þá skyldu starfsreglur stjórnar FF og þeirra nefnda og ráða sem starfa innan félagsins taka sérstakt mið af ákvæðum og markmiðum samkeppnislaga og tryggja að samstarf aðildarfyrirtækja félagsins verði ávallt samþýðanlegt samkeppnislögum. Fleira er síðan tekið fram í skilyrðunum sem lýtur í raun ekki að öðru en að brýna fyrir FF að virða samkeppnisreglur og að útskýra  hvers konar hegðun samrýmist ekki samkeppnislögum, t.d. megi ekki miðla viðkvæmum viðskiptalegum upplýsingum til fasteignasala. Loks er kveðið á um það í sáttinni að FF skuli koma sér upp samkeppnisréttaráætlun, (innra samkeppniseftirlit).

Sjá:

http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2017/Akvordun_43_2017_Adgerdir-til-thess-ad-baeta-samkeppni-i-fasteignasolu.pdf

Undanþágumál eru hér þau mál nefnd þar sem Samkeppniseftirlitið veitir fyrirtækjum undanþágu fyrir tiltekið samstarf enda þótt fyrirkomulag og andlag samstarfsins geti í sjálfu sér takmarkað samkeppni. Skilyrði undaþágu eru hins vegar ströng og skilyrðið sem erfiðast reynist yfirleitt að uppfylla er að tryggt sé að neytendur fái sanngjarna hlutdeid í þeim ávinningi sem samstarfarið hefur í för með sér.

Nýjasta undanþágumálið þar sem Samkeppniseftirlitið veitti undanþágu frá banni 10. gr samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samningum, er mál sem varðar sameiginlegt seðlaver viðskiptabankanna þriggja. (Ákvörðun SE nr. 46/2017).

Athyglisverðasta skilyrðið af fjölmörgum sem viðskiptabankarnir gengust undir samkvæmt sáttinni er tiltekin hagræðingarkrafa til rekstrar seðlaversins. Skal tryggt að heildarkostnaður hvert ár, að undanskildum árunum 2018 og 2019, verði ekki umfram 75% af samanlögðum heildarkostnaði við rekstur seðlavers bankanna þriggja á árinu 2016. Þá lýsa bankarnir  því yfir að þeir muni leitast við að koma því til leiðar að viðskiptavinir þeirra fái notið hlutdeildar í þeirri hagræðingu sem stofnun og rekstur félagsins hefur í för með sér.  Til þess að það nái fram að ganga skuldbinda bankarnir sig m.a. til að innleiða ekki nýjar þóknanir í tengslum við seðlaþjónustu.

Sjá:

http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2017/Akvordun_46_2017_Undanthaga-vegna-stofnunar-og-rekstur4s-sameiginlegs-sedlavers.pdf

Í gegnum tíðina, og þó einkum eftir hrunið 2008, eru samkeppnismálin orðin æði mörg sem hefur lokið með sátt við Samkeppniseftirlitið á grundvelli skuldbidinga af hálfu viðkomandi fyrirtækja sem ætlað er að tryggja samkeppni sem ella myndi skerðast. Sú spurning hlýtur að vakna hvernig tryggja megi að skilyrði séu haldin, ekki síst þegar þau eru ótímabundin og hætta er á að þau gleymist t.d. vegna mannabreytinga hjá viðkomandi fyrirtækjum. Skilyrði sem ekki er farið eftir eru verri en engin skilyrði því þá þverr virðing fyrir samkeppniseftirliti og samkeppnislögum.

Í mörgum málum sem lokið er með sátt er óháðum eftirlitsaðila, eftir atvikum innri endurskoðun, þegar fjármalfyrirtæki eiga í hlut, falið að fylgjast með framkvæmd sátta og skila Samkeppniseftirlitinu reglulega skýrslu um eftirlitið. En í mörgum málum er svo ekki, sbr. mál Arcanum ferðaþjónustu og Félags fasteignasala sem getið er hér að framan. Töluverður fjöldi fyrirtækja á hinum ýmsu mörkuðum starfa undir samkeppnisskilyrðum án þess að fylgst sé með því með formbundnum hætti hvort þau haldi skilyrðin, hvorki af óháðum eftirlitsaðilum né Samkeppniseftirlitinu sjálfu, að því er berst verður séð. Öðrum en neytendum og keppinautum viðkomandi fyrirtækja er því ekki til að dreifa sem “eftirlitsaðilum” með því að viðkomandi fyrirtæki haldi þau skilyrði sem Samkeppniseftirlitið hefur sett þeim, t.d. í kjölfar samruna eða samkeppnislagabrots.

Enginn listi er til yfir þau mál sem lokið hefur með sátt og setningu skilyrða af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Væri það mjög til bóta ef Samkeppniseftirlitið gerði slíkan lista og héldi honum við. Það myndi auðvelda neytendum og keppinautum fyrirtækja, sem starfa undir skilyrðum, að fylgjast með því hvort skilyrði eru haldin og veita þeim þar með samkeppnislegt aðhald.

Eggert B. Ólafsson

_________________________________________

Samkeppnisréttur – Ófullnægjandi eftirlit með samkeppnisbrotum

Ófullnægjandi eftirlit með samkeppnisreglum þýðir að möguleikar fyrirtækja og neytenda til að stefna samkeppnisbrotamálum beint fyrir dómstóla verða mikilvægari.

Samkeppniseftirlitið hefur nýlega sagt frá því að það geti ekki sinnt sem skyldi kvörtunum sem því berast vegna meintra samkeppnisbrota sökum mikils álags við afgreiðslu samrunamála. http://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/nr/2959.

Það er reyndar ekki nýtt að Samkeppniseftirlitið taki kvartanir ekki til efnislegrar umfjöllunar eða setji mál á ís í skjóli heimildar til að forgangsraða málum. Undirliggjandi ástæða þessa er án efa fyrst og fremst fjársvelti stofnunarinnar um langt skeið. Dráttur á að taka samkeppnisbrotamál til meðferðar getur verið jafnslæmur og frávísun (án þess að efnisleg afstaða sé tekin til kæruefnis) þar sem löngum málsmeðferðartíma fylgir sú að hætta að loks þegar Samkeppniseftirlitið kemur með niðurstöðu, hafi samkeppnisbrot þegar valdið neytendum og fyrirtækjum miklum skaða og jafnvel hrakið keppinauta af markaði. Þetta ástand hefur varað lengi.

Góður kostur að höfða mál beint fyrir íslenskum dómstólum og jafnvel einangra málatilbúnað við brot á samkeppnisreglum EES samningsins.

Ef gögn eru fyrir hendi eða tiltæk og málsatvik ljós eða með þeim hætti að þau verði sönnuð í dómsmáli, kann það að vera góður kostur að stefna samkeppnisbrotamali beint fyrir dómstól í stað þess að kæra fyrst til samkeppnisyfirvalda.

Samkeppnisreglur EES samningsins eru strangar bæði að því er varðar samninga og samstilltar aðgerðir sem hamla samkeppni (53. gr. ESS) og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, (54. gr. EES). Gildissvið (lögsaga)samkeppnisreglna EES-samningsins er auk þess vítt og íslenskir dómstólar eru skuldbundnir til að beita þeim geti viðkomandi aðgerð, athöfn eða athafnaleysi haft áhrif á viðskipti milli EES ríkja. Rúm túlkun á skilyrðinu um “áhrif á viðskipti milli EES-ríkja” þýðir að í raun taka samkeppnisreglur EES samningsins til nær allra meiriháttar samkeppnislagabrota sem framin eru hér á landi.

Hvað vinnst með því að stefna máli beint fyrir dómstóla?

  • Löng og tafsöm meðferð mála á stjórnsýslustigi fyrir Samkeppniseftirlitinu og áfrýjunarnefnd samkeppnismála er klippt út.
  • Samkeppniseftirlitið getur ekki úrskurðað um skaðabætur. Fyrir dómstól er hins vegar unnt að fá staðfestingu á að samkeppnislagbrot hafi verið framið og dóm um skaðabætur í einu og sama málinu.
  • Málarekstur fyrir dómstól og öflun álita frá ESA eða EFTA dómstólnum myndi að jafnaði taka mun skemmri tíma en að byrja mál hjá Samkeppniseftirlitinu og fara með það síðan fyrir dómstóla til að heimta bætur. Eftirlitsstofnun EFTA sem og EFTA dómstóllinn eru fljót að skila álitum til dómstóla – bindandi í raun – um efni og gildissvið 53. gr. og 54. gr. ESS samningsins og hvernig ákvæðin horfa við þeim spurningum sem bornar eru undir EES stofnanirnar.
  • Einfaldari málatilbúnaður og málareksturMeð því að einskorða mál við samkeppnisreglur  EES samningsins er komið í veg fyrir að mál snúist hvort tveggja um íslenskan og evrópskan samkeppnisrétt og samspil samkeppnisreglna þessara tveggja lagakerfa með ófyrirséðum flækjum.Það er hins vegar ekki hægt að komast hjá flækjum með því því að einskorða mál við íslenskar samkeppnisreglur því þær evrópsku gilda framar ef þær íslensku stangast á við þær.

Samkvæmt 28.gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið að eigin frumkvæði komið að skriflegum athugasemdum í dómsmáli vegna beitingar 53. og 54. gr. EES-samningsins. Hafi dómstóll hins vegar ákveðið að leita álits EFTA dómstólsins um efni þessara ákvæða og um hvernig beiting þeirra horfir við málsatvikum, fæst „milliliðalaust“ álit þeirrar stofnunar sem hefur síðasta orðið um efni EES reglna. Það skapar réttaröryggi og álit Samkeppniseftirlitsins væri óþarft.

Mál fyrir dómstólum sem byggir eingöngu á að 53. og eða 54. gr. EES samningsins hafi verið brotin, gefur því kost á skjótari, skýrari og einfaldari málsmeðferðmeðferð og beinum aðgangi að hinni endanlegu réttarheimild, EFTA dómstólnum.

Það kann því að vera ótvírætt þess virði fyrir hvern þann þann sem telur sig vera fórnarlamb samkeppnislagabrots að leggja mat á hvort háttsemi af hálfu keppinauts eða aðila sem hann er háður um viðskipti, geti falið í sér brot á samkeppnisreglum EES samningsins.

Eggert B. Ólafsson

________________________________

Samrunaeftirlit – Skortur á gagnsæi hjá Samkeppniseftirlitinu

Framkvæmd samrunaeftirlits af hálfu Samkeppniseftirlitsins er að ýmsu leyti ábótavant. Einn annmarknna er að mati gerinarhöfundar að Samkeppniseftirlitið hefur ekki sem reglu að birta opinberlega, t.d. á heimasíðu sinni, upplýsingar um alla samruna sem það fær til meðferðar. Það er því hætta á að Samkeppniseftirlitið afgreiði samrunatilkynningar án þess að hafa allar upplýsingar um viðkomandi markað. Það er ekki tryggt að viðskiptavinir, birgjar og keppinautar fyrirtækja (hagsmunaðilar) sem eru að sameinast og hafa sent inn lögbundna samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins, hafi ráðrúm til að koma sjónarmiðum sínum að um samkeppnisleg áhrif samrunans. Í flestum tilvikum veit markaðurinn ekki af samruna sem Samkeppniseftirlitinu er tilkynnt um fyrr en stofnunin hefur lokið rannsókn sinni á honum og birt niðurstöðu sína þar að lútandi á vef sínum. Þetta skapar hættu á að Samkeppniseftirlitið taki afstöðu til samruna á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga um samkeppnisaðstæður á viðkomandi markaði. Ekki er að efa að Samkeppniseftirlitið leitist við að byggja ákvarðanir sínar í samrunamálum á sem bestum upplýsingum hverju sinni. Að eigin frumkvæði aflar Samkeppniseftirlitið upplýsinga um viðkomandi markað og gefur aðilum, sem það telur að samruninn geti haft áhrif á, tækifæri til að koma athugasemdum sínum að. Slík upplýsingaöflun takmarkast þó óhjákvæmilega af hugmyndum og vitneskju Samkeppniseftirlitsins um viðkomandi markaði og hvar og hjá hverjum það telur ástæðu til að leita upplýsinga hjá. Ef Samkeppniseftirlitið skýrði frá því á vef sínum að tilkynnt hafi verið um samruna jafnskjótt og því berst fullnægjandi samrunatilkynning og vekti jafnframt athygli á að hagsmunaðilar geti sent stofnuninni upplýsingar sem þeir telji að geti skipt máli fyrir mat á samkeppnislegum áhrifum samrunans, þá myndi draga til muna úr hættunni á að efnislegt mat Samkeppniseftirlitsins á samrunanum byggi á ófullnægjandi upplýsingum. Einnig væri akkur að því fyrir hagsmunaðila ef Samkeppniseftirlitið greindi frá því á vef sínum ef og þegar meðferð samrunamáls flyst úr I. fasa (25 daga „meðferðartíma“) yfir í II. fasa meðferð. Það myndi hafa umtalsvert upplýsingagildi fyrir markaðinn og gæti orðið til þess að í hagsmunaaðilar hugleiddu betur með sér hvort þeir búi yfir þekkingu á og upplýsingum um viðkomandi markað sem hafi þýðingu fyrir mat Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum viðkomandi samruna.

Þess skal geitð að bæði norska og danska samkeppniseftirlitið birta upplýsingar á vefsíðum sínum um samruna sem eru til meðferðar hjá þessum stofnunum hverju sinni. Fyrirtæki geta því fylgst með hvaða samrunarannsóknir eru í gangi á hverju tíma og komið athugasemdum til þessara stofnana sem þau telja að geti haft þýðingu.

Eggert B. Ólafsson