Samkeppnislög

Samkeppnislög nr. 44/2005 með skýringum

1.gr.  

Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að: 
    a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, 
    b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum, 
    c. auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum, 
    d. stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur.

Í frumvarpi að samkeppnislögum segir um 1. gr.

   “Í 1. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir markmiðum samkeppnislaga, en þau eru að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Ákvæðið er að mestu óbreytt frá núgildandi samkeppnislögum, að því undanskildu að fellt er brott úr lögunum að markmiðum þeirra skuli ná með því að vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum. Breytinguna leiðir af þeirri ákvörðun að fella ákvæði um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum úr samkeppnislögum og setja í sérstök lög.” Svo mörg eru þau orð.

Hugtakið virk samkeppni er ekki skilgreint í samkeppnislögum eða greinargerð með þeim og breytingarlögum við þau. Þá er hugtakið ekki hagfræðilegt í þeim skilningi að það er ekki notað af hagfræðingum þegar þeir fjalla um verðmyndunarkenninguna (e. price theory) og samspil framboðs og eftirspurnar.

Hvað er þá virk samkeppni? Sennilega verður næst komist inntaki hugtaksins með því að skilgreina það neikvætt á þessa leið:  Samkeppni er virk ef:

– ekkert fyrirtæki er í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði , og

– ekkert fyrirtæki, hvorki eitt sér eða með öðrum í krafti samhæfðrar hegðunar, hvort sem hún byggir á markaðsgerð og/eða samningum eða samstilltum aðgerðum viðkomandi fyrirtækja, nýtur markaðsstyrk

Markmið samkeppnislaga – er það of þröngt?

Samkvæmnt 1. gr. samkeppnislaga er markmið laganna að  efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:
    a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
    b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
    c. auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum og
d.  stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur

Þegar fyrstu samkeppnislögin voru sett hér á landi 16. maí 1978 (lög nr. 56/1978) hljóðaði markmiðsákvæði laganna svo: Lög þessi hafa að markmiði að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og sanngjarnri skiptingu þjóðartekna með því að:

  1. Vinna gegn ósanngjörnu verði og viðskiptaháttum,
  2. Vinna gegn óréttmætum viðskipta- og samkeppnisháttum svo og samkeppnishömlum sem fela í sér skaðlegar afleiðingar fyrir neytendur, atvinnurekendur eða þjóðfélagið í heild.

Áhersla á hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins er enn kjarninn í markmiðsákvæði samkeppnislaganna.  Hagkvæm nýting framleiðsluþáttanna er veginn á vogarskálum neytendahagsældar (e. consumer welfare) og  heildarhagsældar  (e. total welfare).  Í lang flestum tilvikum hefur beiting  samkeppnisreglna  sömu jákvæðu áhrifin fyrir neytendur og  framleiðendur og þar með fyrir heildarhagsæld þjóðfélagsins. En í þeim fáu tilvikum sem  ábati framleiðenda  yki meira við heildarhagsæld en ábati neytenda,  ræður tillitið til neytendahagsældar. Neytendahagsæld er því í fyrirrúmi við framkvæmd samkeppnislaganna.   Í langflestum tilvikum fara hagsmunir neytenda og þjóðfélagsins í heild  saman við framkvæmd samkeppnisreglna á grundvelli markmiðsins um sem hagkvæmasta nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Það getur  hins vegar þýtt að að önnur markmið  – önnur gildi – sem samkeppnislög geta haft að markmið að efla,  eins og t.d. frelsi til atvinnurekstrar, víkja.    

Samkeppnislög tekin af vef alþingis 16. febrúar 2021 hér.

Eggert B. Ólafsson