Markaðsráðandi staða

Skilgreining:

“[Fyrirtæki er markaðsráðandi hafi það] þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.”  (4. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga).

Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð og rík skylda hvílir á fyrirtækjum í slíkri stöðu að aðhafast ekkert sem raskað getur eðlilegri samkeppni. Ekki er tæmandi lýsing á því í samkeppnislögum hvers konar hegðun markaðsráðandi fyrirtækja telst ólögmæt. Flest mál sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu fjalla hins vegar um samninga sem fela í sér einkakaup, tryggðarákvæði eða undirverðlagningu.


Markaðsyfirráð – Misnotkun

Samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga er misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Í ákvæðinu eru tilgreind dæmi um misnotkun á markaðsráðandi stöðu:

 • krafist er ósanngjarns verðs, viðskiptakjara eða viðskiptaskilmála,
 • takmarkanir eru settar á framleiðslu, markaði eða tækniþróun sem neytendum til tjóns,
 • viðskiptaaðilum er mismunað með ólíkum skilmálum í sambærilegum viðskiptum og samkeppni þannig raskað,
 • skilyrði sett fyrir samningagerð, t.d. um að viðsemjandi taki á sig viðbótarskuldbindingar sem ekki tengjast efni samninganna. 

Einkenni athafna af framangreindu tagi eru að þær eru fallnar til þess að útiloka keppinauta frá markaði – og ef viðkomandi fyrirtæki er í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði, eða tengdum markaði, geturverið um misnotkun á markaðsráðandi stöðu að ræða. Upptalningin er hins vegar ekki tæmandi. á því hvers konar hegðun getur falið í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Algengustu samnigsskilmálar og viðskiptaaðferðir sem hafa útilokunaráhrif á markaði eru

 • ákvæði um einkakaup eða einkasölu – t.d. skuldbinding markaðsráðandi birgis um að viðskiptavinir kaupi eingöngu vöru eða þjónustu af honum.
 • tryggðarkjör – samningar um kjör, t.d. eftirágreiddan afslátt, þegar tilteknu magntakmarki er náð.
 • skaðleg undirverðlagning – t.d. þegar vara eða þjónusta er seld undir tilteknum kostnaðarviðmiðum, yfirleitt breytilegum kostnaði.
 • sértæk verðlækkun – verðlækkun sem beinist sérstaklega að viðskiptavinum keppinauta en tekur almennt ekki til viðskiptavina hins markaðsráðandi fyrirtækis. Ekki skilyrði að verðlagning sé undir kostnaði.
 • verðmismunun – kaupendum mismunað í sambærilegum viðskiptum án þess að kostnaðarlegt hagræði eða aðrar málefnalegar ástæður réttlæti mismununina.
 • verðþrýstingur – Sem dæmi er fyrirtæki A markaðsráðandi á heildsölumarkaði en starfar einnig á tengdum smásölumarkaði. Fyrirtæki A selur fyrirtæki B mikilvægt aðfang á heildsölumarkaði sem notað er til þess að bjóða til sölu vöru eða þjónustu á smásölumarkaði þar sem bæði fyrirtæki A og B eru keppinautar. Heildsöluverð sem fyrirtæki B þarf að greiða fyrirtæki A er svo hátt að það verð sem fyrirtæki A býður sínum viðskiptavinum í smásölu myndi ekki standa undir kostnaði ef smásöluhluti fyrirtækis A þyrfti að greiða sama heildsöluverð og fyrirtæki B.
 • Samtvinnun – t.d. þegar skilyrði fyrir sölu á vöru X er að vara Y sé einnig keypt án þess að málefnalegar forsendur séu fyrir því að vara Y sé keypt líka, s.s. að vara Y sé nauðsynleg fyrir virkni á vöru X.
 • Sölusynjun – t.d. synjun birgis um að eiga viðskipti við tiltekinn smásala og nánast er útilokað fyrir smásalann að verða sér út um vöruna eða sambærilega vöru hjá öðrum aðila.

Önnur tegund af misnotkun á markaðsráðandi stöðu er svonefnd arðránsmisnotkun (e. exploitative abuses). Er hún frábrugðin útilokandi misnotkun aðallega að því leyti að hún beinist beint að viðskiptavinum eða neytendum frekar en keppinautum. Dæmi um slíka misnotkun er of hátt verð eða okur. Einnig getur verið um að ræða ósanngjarna viðskiptaskilmála.

Markaðsráðandi staða er ekki bönnuð en sú skylda hvílir hins vegar á fyrirtækjum í slíkri stöðu að grípa ekki til neinna aðgerða sem raskað geta eðlilegri samkeppni. Eru þessar skyldur ríkari eftir því sem staða þeirra er sterkari. Brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu er ekki háð því að sýnt sé fram á skaðleg áhrif eða ásetning um að raska samkeppni. Ef hins vegar um þetta er að ræða getur það auðveldað að sýna fram á brot og viðbúið að viðurlög verði þyngri.

Beiting 11. gr. samkeppnislaga er umdeild enda getur ákvæðið falið í sér bann við hegðun sem almennt þykir æskileg, t.d. verðlækkun á vöru. Einnig vaknar sú spurning hvort tilgangurinn sé að vernda samkeppni eða keppinauta sem eru mögulega með óhagkvæman rekstur. Umræða hefur því verið um að leggja meiri áherslu á að meta samkeppnisleg áhrif aðgerða markaðsráðandi fyrirtækja. Enn sem komið er hefur þó framkvæmd í Evrópurétti, sem íslenskur samkeppnisréttur sækir fyrirmynd sína til, verið sú að byggja á hefðbundnu mati, þ.e. að ekki sé nauðsynlegt að sýna fram á skaðleg áhrif aðgerða.