Hugtök í samkeppnisrétti

Eggert B. Ólafsson

Afgerandi áhrif (e. Decisive influence)

Með afgerandi áhrifum er yfirleitt átt við að fyrirtæki (eða einstaklingur sem er með yfirráð eða sameiginleg yfirráð í fyrirtæki) geti komið í veg fyrir að mikilvægar viðskiptalegar ákvarðanir séu teknar í tilteknu öðru fyrirtæki eða að menn sem taka slíkar ákvarðanir séu tilnefndir eða kosnir í áhrifastöður, t.d. í stjórn, í tilteknu öðru fyrirtæki.

Algjör svæðisvernd (e. Absolute territorial protection)

Algjör svæðisvernd leiðir af þeirri aðferð framleiðenda eða dreifingaraðila við endursölu á vörum að binda endursölu viðkomandi vöru við skilgreint svæði (gjarnan það land þar sem endurseljandinn er með starfsstöð sína) og öðrum endurseljendum sem kaupa sömu vöru af framleiðandanum eða dreifingaraðilanum er óheimilt að selja inn á skilgreind svæði annarra endurseljenda, bæði að því er varðar virka (e. active) og óvirka (e. passive) sölu. Slíkir skilmálar hólfa niður makaði eða landssvæði.

Atvinnurekstur 

„Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi.“ (1. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga). Það er ekki hugtaksskilyrði að viðkomandi atvinnurekstur sé stundaður í hagnaðarskyni.

Björgunarsamruni (e. Rescue merger)

Hugtakið björgunarsamruni, einnig nefnt „sjónarmið um fyrirtæki á fallandi fæti“ (e. Failing firm defence), vísar til samruna sem fá náð fyrir augum samkeppnisyfirvalda þar sem það er ekki orsakasamband á milli samruna og þeirrar samkeppnisröskunar sem fylgir í kjölfarið, þ.e.a.s. samkeppnisröskunar sem ella hefði leitt ógildingar samrunans. Samkeppniseftirlitið hefur skilgreint þrjú skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo um björgunarsamruna geti verið að ræða: (i) Að fyrir liggi að félag það sem málsaðilar halda fram að stefni í þrot muni í nánustu framtíð hrökklast af markaðnum vegna fjárhagserfiðleika ef það yrði ekki tekið yfir af öðru félagi; (ii) annar kaupandi er ekki fyrir hendi, hvers yfirtaka fæli í sér minni röskun á samkeppni og (iii) eignir yfirtekna fyrirtækisins hyrfu af markaðnum, yrði ekki af samrunanum.

Breiddarstyrkur (e. Portfolio power)

Breiddarstyrkur birtist í því að heildarstyrkur fyrirtækjamstæðu vegna mikillar breiddar í vöruframboði er meiri en summa markaðsstyrks einstakra fyrirtækja innan samstæðunnar. (2+2=5!). Breiddarstyrkur fyrirtækjasamsteypu getur leitt til útilokunar keppinauta frá markaði enda þótt ekkert eitt fyrirtækjanna sem mynda samsteypuna njóti markaðsstyrks á sínum markaði. Hafi eitthvert fyrirtækjanna innan samsteypunnar hins vegar markaðsstyrk á einhverjum viðkomandi markaða eykur það eðli máls samkvæmt líkur á að breiddarstyrkur sé fyrir hendi. Samsteypusamruni getur aukið eða skapað það mikinn breiddarstyrk að samkeppnisyfirvöld telji að hætta sé að hann leiði til umtalsverðrar röskunar á samkeppni. Breiddarstyrkur getur ekki myndast nema um tengda markaði sé að ræða.

Eftirspurnarstaðganga (e. Demand substitution)

Kjarninn í skilgreiningunni á viðkomandi markaði er hugtakið staðganga. Þegar rætt er um eftirspurnarstaðgöngu er verið að horfa til samkeppnislegs aðhalds á eftirspurnarhlið markaðar. Samkvæmt skilgreiningunni í samkeppnislögunum á viðkomandi vörumarkaði skal meta staðgöngu frá sjónarhóli neytenda.  Ef neytendur geta skipt yfir í aðra vöru, vöru “B”,  hækki vara “A” í verði, vegna þess að vara “B” er þegar á boðstólum, er um eftirspurnarstaðgöngungu að ræða, þ.e.a.s önnur eða aðrar vörur eru fyrir hendi á markaðnum sem geta svarað eftirspurn neytenda og þær mynda þá viðkoamandi markað með vöru “A”. Enda þótt “[a]lmennt [megi] segja að eftirspurnarstaðganga skipti mestu máli við skilgreiningu markaða …” (Samkeppniseftirlitið, t.d. í ákvörðun 3/2011, bls. 7)  getur samkeppnislegt aðhald á framboðshlið markaðar, framboðsstaðganga  einnig skipt máli þegar skilgreina skal viðkomandi markað.

Fákeppni (e. oligopoly)

Skilgreining hagfræðiprófessors:

Fákeppni einkennist af:

 • fáum fyrirtækjum þar sem sum eru mjög stór,
 • samkynja eða ósamkynja vörum,
 • hindrunum við að komast inn á markaðinn,
 • töluverðum áhrifum einstakra fyrirtækja á söluverð og
 • söluörvandi aðgerðum s.s. auglýsingum, umbúðum og vöruúrvali.

(Ágúst Einarsson professor við Viðskipta- og hagfræðideild HÍ 2004)

Samkeppniseftirlitið:

Með fákeppnismarkaði er átt við markað þar sem tiltölulega fáir keppinautar hafa samanlagt meginhluta markaðshlutdeildar. Á þetta jafnvel þó margir smærri keppinautar með litla hlutdeild kunni einnig að starfa vera á viðkomandi markaði. (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 40/2017 Athugun Samkeppniseftirlitsins á drykkjarvörumörkuðum vegna beiðni um undanþágu fyrir söfnun og miðlun á markaðsupplýsingum, neðnmálsgrein 68, bls. 41.)

Framboðsstaðganga (e. Supply substitutiion)

Framboðsstaðganga er fyrir hendi ef vörur sem standa neytendum ekki þegar til boða, geta orðið það vegna þess að aðrir framleiðendur  eta komið með skömmum fyrirvara inn á markaðinn, sjái þeir sér hag í því t.d vegna verðhækkana á þeim vörum sem þegar standa neytendum til boða. Skilyrði þess að að talið verði að samkeppnislegt aðhald geti falist í framboðsstaðgöngu með sama hætti og eftirspurnarstaðgöngu  er að fyrirtæki sem geta framleitt staðgönguvöruna geti komið með hana inn á markaðinn með skjótum og virkum hætti, t.d. með jafneinfaldri aðgerð og að nýta framleiðlsulínu sem þegar er til staðar til að framleiða staðgömguvöruna.

Framleiðsluþættir þjóðfélagsins

Með framleiðsluþáttum er hér átt við allt sem nýtt er við framleiðslu vöru og þjónustu, svo sem vinnu, þekkingu, náttúruauðlindir og fjármagn. Framleiðsluþættirnir, og þar með framleiðslugetan, eru takmarkaðir og því fá ekki allir allt sem þeir óska sér. Fyrir vikið þarf með einum eða öðrum hætti að ákveða hvað skuli framleiða og hverjir eigi að njóta góðs af slíkri framleiðslu. Samkeppnislögum er ætlað að stuðla að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþáttanna með því að efla virka samkeppni.  

Fyrirtæki (e. Undertaking)

Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.  (2. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga).

Grófar samkeppnishömlur (e. Hardcore restraints of competition)

Ákveðnar  samkeppnishömlur í samningum eða sem birtast  í viðskiptaaðferðum eru taldar sérstaklega alvarlegar vegna áhrifa þeirra á samkeppni. Að jafnaði eru þetta samkeppnishömlur sem eru taldar hafa að markmiði að takmarka samkeppni, þ.e. ákvarðanir, ákvæði í samningum eða samstilltar aðgerðir: (i) um gerð tilboða, verð, afslætti,  álagningu eða önnur viðskiptakjör, (ii) um markaðsskiptingu t.d. eftir landssvæðum, takmörkun eða stýringu á framleiðslu, tækniþróun eða fjárfestingu, (iii) eða sem leiða til útilokunar frá markaði. Ef samkeppnistakmörkun fellur undir flokk grófra samkeppnishamla hefur það að þau áhrif að því er varðar lóðrétta samninga að viðkomandi samningur teldist að jafnaði ekki undanþáguhæfur samkvæmt 15 gr. samkeppnislaga  og, hafi samningur áhrif á viðskipti milli EES ríkja, nyti hann ekki undanþágu samkvæmt hópundanþágureglugerð ESB fyrir lóðrétta samninga. Að því er varðar lárétta samstarfssamninga, yrði samningur, sem ella teldist undanþáguhæfur eða ekki talin fela í sér samkeppnislagabrot, talin andstæður 10. gr. samkeppnislaga (og eftir atvikum  1. mgr. 53. gr. EES samningsins) ef hann hefur að geyma grófa samkeppnistakmörkun.

Láréttir samstarfssamningar (e. Horizontal cooperation agreements)

Láréttir samstarfssamningar milli fyrirtækja geta haft verulegan efnahagslegan ávinning í för með sér. Með slíkum samningum er unnt að skipta kostnaði, t.d. við rannsóknir og þróun, auka fjárfestingu t.d. með því að deila áhættu og innleiða nýjungar hraðar en ella svo fátt eitt sé nefnt. Láréttir samstarfssamningar geta hins vegar leitt til samkeppnislegra vandamála. Ef samstarfsaðilar semja jafnframt beint eða óbeint um hvernig verðleggja skuli afurðir samstarfsins (verðsamráð), hvernig og hvar viðkomandi fyrirtæki skuli markaðssetja afurðirnar (markaðsskipting), fæli samstafssamnigur að jafnaði í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga án tillits til efnahagslegs ávinnings hans að öðru leyti. Mat á því hvenær lárettur samstarfssamningur er löglegur samkvæmt samkeppnisreglum getur verið vandasamt. Fyrirtækjum til leiðbeiningar um hvað má og hvað má ekki í lárettu samstarfi hefur framkvæmdastjórn ESB gefið út leiðbeiningar um beitingu 101. gr. samningsins um starfshætti Evrópusambandsins um lárétta samstarfssamninga. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert þær að sínum. (Leiðbeinandi reglur um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum. (Birtar 12. desember 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins (2013/EES/69/01)). Samkeppniseftirlitið fer eftir þessum leiðbeiningum þegar eftirlitið beitir 10. gr. samkeppnislaga.

Lóðréttir samningar (e. Vertical agreements)

Samningur er lóðrettur ef hann er á milli tveggja eða fleiri fyrirtækja sem, að því er viðkomandi samning varðar, koma að honum sem fyrirtæki á mismunandi stigum framleiðslu- eða drefingarkeðjunnar. Með sama hætti getur samtillt aðgerð verið lóðrétt í framangreindum skilningi. “…. samningar og samþykktir milli fyrirtækja, … og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði” að takmarka samkeppni … (Úr 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga) (e. Restraint of competition by object). “Ef samráð hefur að markmiði að raska samkeppni telst 10. gr. samkeppnislaga brotin við það eitt að tiltekin háttsemi eigi sér stað. Þarf þá ekki að taka til athugunar hvort samráðið hafi raskað samkeppni. Er þá nánar tiltekið ekki þörf á því að sýna fram á að samráðið hafi „raunveruleg eða hugsanleg“ samkeppnishamlandi áhrif. Byggir þetta á því mati að ákveðin samvinna eða samskipti milli fyrirtækja séu í eðli sínu það skaðleg að ekki sé þörf að taka það til athugunar í hverju máli fyrir sig hvort þau hafi raskað eða verið líkleg til þess að raska samkeppni. Hefur verið bent á að hér liggi til grundvallar áþekk sjónarmið og gilda um hættubrot í refsirétti. (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 bls. 50, brot Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga).

Markaðsgerð (e. Market structure)

Markaðsráðandi staða (e. Market dominance)

 1. gr. samkeppnislega leggur bann við misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu.

“[Fyrirtæki er markaðsráðandi hafi það] þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.”  (4. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga). Í hugtakinu markaðsráðandi staða felst ekki krafa um að engin samkeppni ríki á viðkomandi markaði. Hvað er til marks um að fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu?

 • Markaðshlutdeild. Ef markaðshlutdeild fer yfir 50% þá eru allar líkur á að fyrirtækið hafi markaðsráðandi stöðu
 • Ef miklu munar á markaðshlutdeild þess fyrirtækis sem stærstu hlutdeild hefur og þess fyrirtækis sem næst kemur í röðinni er líklegt að stærsta fyrirtækið hafi markaðsráðandi stöðu.
 • Ef aðgangur er erfiður að markaði styrkir þá styrkir það að öðru jöfnu niðurstöðu um að fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Hér er átt við atriði á borð við lagalegar hindranir, fjárhagslegar hindranir, stærðarhagkvæmni, aðgengi að birgjum, þróað sölukerfi og þekkt vörumerki.

„Rétt er að hafa í huga að fyrirtæki geta einnig verið í markaðsráðandi stöðu þrátt fyrir að hafa lægri hlutdeild en 50% á viðkomandi markaði. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 8/2008, Fiskmarkaður Íslands hf. gegn Samkeppniseftirlitinu, var fyrirtæki með 42-46% markaðshlutdeild talið markaðsráðandi. Einnig hefur dómstóll ESB talið að fyrirtæki sem hafa innan við 40% markaðshlutdeild geti verið í markaðsráðandi stöðu “Niðurstaða um markaðsráðandi stöðu byggir þannig á heildarmati þar sem bæði markaðshlutdeild og atriði sem tengjast skipulagi markaðarins hafa þýðingu, sbr. dómur Hæstaréttar Íslands frá 14. mars 2013 í máli nr. 355/2012 Lyf og heilsa hf. gegn Samkeppniseftirlitinu.” (Ákvörðun SE nr. 8/2013, bls 63, Misnotkun Valitors hf. á markaðsráðandi stöðu og brot gegn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008). hafa að markmiði að takmarka samkeppni (e. restriction of competition by object).

Markaðsstyrkur (e. Market power)

[Markaðsstyrkur birtist í getu] fyrirtækis til að hækka verð, minnka framleiðslu, úrval eða gæði vöru eða þjónustu, draga úr nýsköpun eða hafa með öðrum hætti neikvæð áhrif á samkeppni.”  (Úr ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 12/2009, Samruni Senu og Skífunnar, bls. 20).

Minniháttarreglan (De Minimis)

Minniháttarregluna er að finna í  13. gr. samkeppnislaga. Með minniháttarreglunni eru  samningar sem ella féllu undir bann 10 gr. samkeppnislaga á samkeppishamalandi samningum felldir undan gildissviði á ákvæðisins með þeim rökum að þrátt fyrir að þeir takmarki samkeppni í sjálfu sér, sé takmörkunin óveruleg.

Hvað telst óverulegt er þó ekki ákvarðað útfrá efni viðkomandi samnings, heldur út frá markaðshluteild  á viðkomandi markaði.

Þannig:

getur láréttur samningur milli fyrirtækja, sem samanlagt eru með 5% eða þaðan af lægri  markaðshlutdeild á  viðkomandi markaði, ekki varðað við 10. gr. samkeppnislaga, og

lóðréttur samningur milli fyrirtækja, sem samanlagt eru með 10% eða þaðan af lægri  markaðshlutdeild á  viðkomandi markaði getur ekki varðað við 10. gr. samkeppnislaga.

Það ber að athuga að við útreikning á markaðshalutdeild skal auk hlutdeildar þeirra fyrirtækja, sem beina aðild eiga að samningi, einnig taka með markaðshlutdeild  fyrirtækja sem aðilar samningsins hafa bein eða óbein yfirráð yfir eða fyrirtæki sem hafa bein eða óbein yfirráð yfir aðilum samningsins.

Ef um sambland af láréttum og lóðréttum samningum er að ræða eða ef erfitt er að flokka samning annaðhvort sem láréttan eða lóðréttan gilda 5% viðmiðunarmörkin.

Í 13. gr. samkeppnislaga er tekið tillit til þess að markaðshlutdeild fyrirtækja tekur gjarnan smávægilegum breytinum milli ára. Því má markaðshlutdeild  fyrirtækja að láréttum samningi fara upp í 5,5% tvö ár í röð án þess að það hafi áhrif á stöðu viðkomandi samnings gagnvart 10. gr. samkeppnisaga. Í tilviki lóðréttra samninga eru viðmunarmörkin að þessu leyti 11%.

Þá er þess að gæta að minniháttarreglan gildir ekki  ef samkeppni á viðkomandi markaði er þegar takmörkuð af uppsöfnuðum áhrifum sambærilegra samninga á markaðnum.

Loks er það athyglistvert að minniháttarreglan samkvæmt 13. gr. samkeppnislaga gildir án tillits til þess hvort samkeppnistakmörkunin sem samningi felst hefur að markmiði að takamarka samkeppni eða ekki. M.ö.o., minniháttarreglan tekur jant  til grófra samkeppnistakmrakana sem annarra.

Óvirk sala (Passive sales).

Men “óvirkri sölu” er átt við sölu þar sem frumkvæðið að viðskiptunum kemur frá kaupandanum og án þess að seljandinn hafi markaðssett vöruna gagnvart kaupandanum sem hugsanlegum viðskiptavin á sölusvæði sem kaupandinn telst til eða viðskiptavinahópi sem kaupandinn er hluti af. Almennar auglýsingar eða kynningar sem viðskiptavinir innan einkasölusvæða eða einkaviðskiptavinahópa annarra dreifinagaraðila sjá en sem um leið eru eðlileg aðferð við að koma vörum á framfæri að því er varðar önnur svæði  eða hópa, þ.m.t  eigið sölusvæði auglýsandans, telst óvirk sala. (Sjá einnig “virk sala”).

Sameiginleg yfirráð (e. Joint control)

Sameiginleg áhrif eru fyrir hendi þegar tvö eða fleiri fyrirtæki eða einstaklingar geta haft afgerandi áhrif um málefni annars fyrirtækis. Sameiginleg yfirráð geta byggst á rétti og réttindum (de jure) eða verið fyrir hendi í raun (de facto) t.d. vegna dreifingu atkvæðisréttar.

Samhæfing – samhæfð hegðun

Samlegðaráhrif 

“Með samlegðaráhrifum er átt við það þegar einn þáttur í tiltekinni starfsemi styður annan. Sem dæmi má nefna þegar tvö fyrirtæki sem starfa á sitthvoru sviðinu sameinast og við það annaðhvort lækkar heildarkostnaður eða heildartekjur aukast. Á ensku er ýmist talað um synergy eða economics of scope” (Vísindavefurinn, höf. Glylfi Magnússon dósent).

Samningur (e. Agreement)

Samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005  eru allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað.

Hugtakið samningur hefur aðra merkingu í samkeppnisréttti en í samningrétti.

“Samningur í skilningi 10. gr. [samkeppnislaga] getur verið í hvaða formi sem er og verður að skýra hugtakið rúmt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 37/2003.33 Samningur skv. 10. gr. getur þannig verið óundirritaður eða undirritaður, munnlegur eða skriflegur og þarf ekki að vera bindandi, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 27. nóvember 2014 í máli nr. 112/2014, Samkeppniseftirlitið gegn Langasjó o.fl. … Um samning í skilningi 10. gr. samkeppnislaga er að ræða ef fyrirtæki hafa á einhvern hátt lýst yfir sameiginlegum vilja sínum til að hegða sér á markaði með tilteknum hætti. Samningur er t.d. fyrir hendi þegar aðilar hans fylgja sameiginlegri áætlun, sem takmarkar eða er líkleg til að takmarka sjálfstæða hegðun þeirra á markaðnum með því að stuðla að sameiginlegum aðgerðum eða athafnaleysi. Slík áætlun þarf hins vegar ekki að vera heildstæð, tæmandi eða lýsa í smáatriðum þeim aðgerðum sem fyrirtæki ætla að grípa til. Hugtakið samningur í skilningi 10. gr. getur þannig tekið til ófullkomins eða lauslegs sameiginlegs skilnings aðila (e. inchoate understandings) og skilyrtra og afmarkaðra samninga sem í samningaferli leiða til endanlegs samnings.” (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 – Brot Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga, bls. 45 -46. Tílvísunum í tilvitnuðum hluta ákvörðunarinnar er sleppt hér).

Samruni (e. Concentration)

„Samruni telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar: a. vegna samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja eða hluta úr fyrirtækjum sem áður störfuðu sjálfstætt, b. þegar fyrirtæki tekur yfir annað fyrirtæki, c. vegna þess að einn eða fleiri aðilar, sem þegar hafa yfirráð yfir a.m.k. einu fyrirtæki, eða eitt eða fleiri fyrirtæki ná beinum eða óbeinum yfirráðum, í heild eða að hluta, yfir einu eða fleiri fyrirtækjum til viðbótar með því að kaupa verðbréf eða eignir, með samningi eða öðrum hætti, d. með stofnun fyrirtækis um sameiginlegt verkefni sem gegnir til frambúðar allri starfsemi sjálfstæðrar efnahagseiningar.“ (1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga).

Samstilltar aðgerðir (e. concerted practices)

Samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005  eru allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað. Hugtakið samstilltar aðgerðir tekur til hvers konar beinna eða óbeinna samskipta milli  fyrirtækja um atriði sem eru fallin til þess að raska samkeppni.  Auk þess tekur hugtakið samstilltar aðgerðir til hegðunar á markaði í tengslum við samskipti og orsakasamband þar á milli án þess að keppinautarnir þurfi að  hafa fallist á eða hegðað sér samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun. Samstillt aðgerð í skilningi 10 gr. samkeppnislaga þarf ekki að hafa haft áhrif á markaði til þess að ákvæðið teljist hafa verið brotið. Ólögmætar samstilltar aðgerðir geta bæði falist í einhliða upplýsingamiðlun  eins fyrirtækis til annars eða annarra og tvíhliða upplýsingaskiptum  milli keppinauta um atrið sem eru fallin til þess að raska samkeppni.

Samtvinnun (e. Tying)

Það er nefnt samtvinnun þegar kaup eru skilyrt þannig að  vara – eða þjónusta – fæst ekki keypt nema önnur vara – eða þjónusta – sé einnig hluti af sömu kaupum.  Akkur kaupanda af samtvinnun er gjarnan sá sá að hann fær aðra eða báðar vörurnar á lægra verði en ef hann keypti þær í  sitthvoru lagi.  Akkur seljanda er aukin umsetning.  Samtvinnun getur takmarkað samkeppni ef fyrirtækið sem tvinnar saman sölur hefur markaðsstyrk að því er varðar aðra vöruna sem það notar til að styrkja stöðu sína á öðrum markaði. Við tilteknar markaðsaðstæður getur slík vogaraflshegðun falið í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu vegna útilokunaráhrifa hennar.

Staðgönguvara – staðgönguþjónusta (staðganga)  (e. Substitute product/service)

“Staðgengdarvara  og staðgengdarþjónusta er vara eða þjónusta sem að fullu eða verulegu leyti geta komið í stað annarrar.” (5. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga). Sjá einnig eftirspurnarstaðganga og framboðsstaðganga.

Stærðarhagkvæmni (e. economies of scale)

Stærðarhagkvæmni lýsir sér í því að meðalkostnaður lækkar við það að umsvif aukast. Þannig gæti stærðarhagkvæmni skilað ávinningi ef tvö fyrirtæki í sömu atvinnugrein sameinast.” (Vísindavefurinn, höf.: Gylfi Magnússon, dósent).

Tilkynningarskyldir samrunar

Samkvæmt 17. gr. a. í samkeppnislögum skal tilkynna um samruna til Samkeppniseftirlitsins ef

 • sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 3 milljarðar kr. eða meira á Íslandi, og
 • að minnsta kosti tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 300 millj. kr. ársveltu á Íslandi hvert um sig.

Viðkomandi markaður. (e. Relevant market)

 Fyrirtæki sem hefur markaðsstyrk hefur hann að yfirleitt ekki alls staðar. Viðkomandi markaður í skilningi samkeppnisréttar tekur bæði til vöru [þjónustu] og landsvæðis. Fyrirtæki sem framleiða vörur, sem geta ekki komið í stað hvorrar annarrar, keppa ekki hvort við annað. Það sama á við um fyrirtæki sem selja eins vörur en á sitt hvoru landssvæðinu án skörunar eða mögulegrar skörunar milli svæða. (Sjá Herbert Hovenkamp:  Federal Antitrust Policy, The Law of Competition and Its Practice, 5. útgáfa 2015, bls. 149).

Í nær öllum samkeppnismálum þar sem samkeppnisyfirvöld beita samkeppnislögum með íþyngjandi hætti eða veita undanþágu frá bannákvæðum laganna þarf því hvort tveggja að skilgreina viðkomandi vörumarkað (eða þjónustumarkað) og viðkomandi landfræðilegan markað.

Hugtakið viðkomandi markaður er samkeppnisréttarlegt hugtak. Það er ekki notað í hagfræði (nema kannski þegar sagt er frá samkeppnisreglum). Hugtökin staðganga og staðgönguvara (orðin staðgengdarvara og staðkvæmdarvara eru stundum notuð yfir það sama), eru hins vegar rekstrarhagfræðileg hugtök. Markaðsskilgreiningar í samkeppnismálum hvíla því á rekstrarhagfræðilegum grunni enda þótt hugtakið viðkomandi markaður sé ekki notað hagfræði.

Viðkomandi landfræðilegur markaður (e. Relevant geographic market)

Skýr skilgreining: „Viðkomandi landfræðilegur markaður er svæði innan hvers fyrirtæki getur hækkað verð án þess að 1) stór hluti viðskiptavina þess beini viðskiptum sínum umsvifalaust til annarra seljenda utan svæðisins; eða 2) aðrir framleiðendur/seljendur utan svæðisins streymi inn á svæðið með staðgönguvörur.“ (Herbert Hovenkamp: Antitrust,  Black Letter Oulines, 5. útgáfa 2011 bls. 143).

Skilgreining Samkeppniseftirlitsins: „Til landfræðilegs markaðar telst það svæði þar sem hlutaðeigandi fyrirtæki eru viðriðin framboð og/eða eftirspurn eftir viðkomandi vöru eða þjónustu, þar sem samkeppnisskilyrði eru nægilega lík og sem unnt er að greina frá nærliggjandi svæðum, einkum vegna þess að samkeppnisskilyrði eru greinilega frábrugðin á þeim svæðum.“ (Úr kafla 7 í viðauka I við reglur Samkeppniseftirlitsins nr. 684/2008 um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum)

Viðkomandi vörumarkaður (e. Relevant product market)

„Með viðkomandi vörumarkaði er átt við markað fyrir vörur og/eða þjónustu sem neytendur líta á sem staðgönguvörur eða staðgönguþjónustu vegna eiginleika sinna, verðs og áformaðrar notkunar. Markaður er sölusvæði vöru og staðgönguvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgönguþjónustu, sbr. 4. gr. samkeppnislaga. (Úr kafla 7 í viðauka I við reglur Samkeppniseftirlitsins nr. 684/2008 um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum).

Virk sala (e. Active sales)

Það er nefnt virk sala þegar dreifingaraðili tiltekinnar vöru, (dreifingaraðili “A”) markaðssetur vöruna innan einkasölusvæðis annars dreifingaðila sömu vöru (dreifingaraðila “B”)  með því að kynna neytendum innan viðkomandi einksölusvæðis vöruna til kaups. t.d. (i) í pósti, (ii) með heimsókn sölumanns, (iii) með því að beina auglýsingum eða öðrum markaðssetningaraðferðum sérstaklega að skilgreindum hópi neytenda innan einkasölusvæðis dreifingaraðila “B”, (iv) með því að koma sér upp vöruhúsi, afhendingarstað eða útibúi innan einkasölusvæðis dreifingaraðila “B”. Ef dreifingaraðila “B” hefur verið úthlutað einkaviðskiptamannahópur, teldust markaðs- og söluaðferðir  sem nefndar eru í liðum (i) – (iii) virk sala. Hugtkaið virk sala kemur t.d.  fram í reglugerð Evrópusambandsins nr. 330/2010 um hópundanþágu gagnvart flokkum lóðréttra samninga og samstilltra aðgerða.

Virk samkeppni (e. Effective competition)

Hugtakið „virk samkeppni“ kemur víða fyrir í samkeppnislögum, nr. 44/2005. Í 1 gr. laganna segir að lögin „[hafi það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins.“  Í  17 gr. c. samkeppnislaga segir að „[t]elji Samkeppniseftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, getur stofnunin ógilt samruna.“

Hugtakið virk samkeppni er ekki skilgreint í samkeppnislögum eða greinargerð með þeim og breytingarlögum við þau. Þá er hugtakið ekki hagfræðilegt í þeim skilningi að það er ekki notað af hagfræðingum þegar þeir fjalla um verðkenninguna (e. price theory) og samspil framboðs og eftirspurnar.

Hvað er þá virk samkeppni? Sennilega verður næst komist inntaki hugtaksins með því að skilgreina það neikvætt á þessa leið:  Samkeppni er virk ef:

– ekkert fyrirtæki er í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði , og

– ekkert fyrirtæki, hvorki eitt sér eða með öðrum í krafti samhæfðrar hegðunar, hvort sem hún byggir á markaðsgerð og/eða samningum eða samstilltum aðgerðum viðkomandi fyrirtækja, nýtur markaðsstyrks.

Yfirráð (e. Control)

“Yfirráð skv. 1. mgr. skapast af rétti, með samningum eða með einhverjum öðrum hætti sem annaðhvort sérstaklega eða samanlagt, og með hliðsjón af staðreyndum eða lagalegum atriðum sem við eiga, gerir aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á fyrirtæki, einkum með: a. eignarhaldi eða rétti til að nota eignir fyrirtækis, allar eða að hluta, b. rétti eða samningum sem veita afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir stofnana fyrirtækis. Yfirráð öðlast aðilar sem: a. eru rétthafar eða eiga tilkall til réttar samkvæmt samningum þar að lútandi, eða b. þrátt fyrir að vera ekki handhafar slíks réttar eða eiga ekki tilkall til réttar samkvæmt slíkum samningum hafa möguleika til að beita slíkum réttindum.”  (2. og 3. mgr. 17. gr. samkeppnislaga). Algengast er að yfirráð byggi a eignarheimildum yfir fyrirtæki, en þau geta einnig byggst a samningum eða aðstöðu sem gerir aðila kleift að hafa afgerandi ahrif á fyrirtæki með sama hætti og eigandiÞannig getur langtíma leigusamningur um rekstrartæki fyrirtækis sem skapa tekjur þess falið í sér samruna ef leigutakinn ef leigutakinn fer með sambærilegar rekstrarlegar heimildir að því er varðar hið leigða og raunveulegur eigandi. Yfirráð þurfa ekki að vera altæk til þess að teljast yfirráð í skilningi samrunareglnanna. Það sem skiptir máli er hvort þau veiti þeim, sem með þau fer, möguleika á að ráða niðurstöðu atkvæðagreiðslna í stofnunum fyrirtækis (t.d. á stjórnarfundum) eða hverjir skipi þær. Möguleiki til þessa getur hvort sem er byggst á lagalegum rétti (de jure) eða verið fyrir hendi í raun vegna aðstæðna (de facto). Það þaf ekki að sýna fram á að áhrifunum sé eða muni verða beitt í raun.