Category Archives: Samkeppnislöggjöf

Samkeppnislöggjöf, íslensk og alþjóðleg

Frægustu orð John Sherman öldungadeildarþingmanns

Eggert B. Ólafsson

Fyrstu samkeppnislögin í númtímaskilningi eru gjarnan talin vera hin svonefndu Shermanlög í Bandaríkjunum sem sett voru 1890 og kennd eru við aðalfrumkvöðulinn að setningu þeirra, John Sherman öldungadeildarþingmann frá Ohio. Á síðunni “Brot úr sögunni”  hér á vefsíðu Samkeppnisráðgjafar er nú að finna þann kafla úr ræðu John Sherman sem mest er sennilega vitnað í þegar fjallað er um aðdragandann að lagasetningunni. Ræðan var flutt 21. mars 1890 þegar frumvarpið að lögunum var til umræðu í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Ný síða á vef Samkeppnisráðgjafar: Hugtök í samkeppnisrétti

Eins og almennt gildir um hugtök á hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar, hafa ýmis  hugtök í samkeppnisrétti sértæka merkingu, þ.e. þau hafa aðra merkingu en þegar sömu orð eru notuð í daglegu lífi eða á öðrum sviðum. Stundum hafa þau víðtækari merkingu í samkeppnisrétti en þau hafa í daglegu máli. Í öðrum tilvikum hafa þau þrengri merkingu. Skilgreining  þessara hugtaka og hvernig þau eru notuð í samkeppnisrétti er lykillinn að skilningi og þekkingu á samkeppnisreglum og hvernig þeim er beitt. Aðeins fá algengustu hugtakanna eru skilgreind í samkeppnislögum eða reglum Samkeppniseftirlitsins. Inntak flestra hugtaka í samkeppnisrétti hefur mótast í gegnum dómsúrlausnir og ákvarðanir samkeppnisyfirvalda. Í því efni gætir langmest áhrifa dómstóla Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hugtök í samkeppnisrétti eru mörg. Markmiðið er að birta nýja skilgreiningu á síðunni annan hvern dag.