Eggert B. Ólafsson
Skilgreining: Skilaboð
Hugtakið skilaboð er notað í víðtækri merkingu í þessari grein þannig að undir hugtakið falla hvers konar ályktanir, álit, tillögur, tilmæli, ábendingar, ráðleggingar, leiðbeiningar og yfirlýsingar frá fyrirtækjasamtökum sem beint er til aðildarfyrirtækjanna eða til stærri hóps, jafnvel alls almennings.
Skilaboð geta verið hluti af öðru efni eins og samþykktum (lögum) eða siðareglum samtaka, en þau geta einnig birst sem sjálfstæðar og óformlegar ráðleggingar, leiðbeiningar eða hvatning. Skilaboð geta bæði borist skriflega, t.d. í fréttabréfi eða með ársskýrslu og munnlega, t.d. á aðalfundum í samtökum eða á óformlegum fundum í undirnefndum eða sérfræðihópum samtaka.
|
Inngangur
Ályktanir, ráðleggingar, tilmæli og önnur skilaboð frá fyrirtækjasamtökum sem varða samkeppnisforsendur geta leitt til aukinnar samhæfingar í markaðshegðun aðildarfyrirtækjanna. Slík skilaboð geta orðið þess valdandi að aðildarfyrirtækin bregðist með sama eða áþekkum hætti við aðstæðum á markaðnum.
Ef skilaboð varða mikilvæga samkeppnisforsendu eru líkur á að þau séu ólögleg. Það stafar af því að í slíkum tilvikum er litið svo á að skilaboðin hafi óhjákvæmilega áhrif á markaðshegðun aðildarfyrirtækjanna. Það skiptir ekki máli hvort fyrirtækjunum sé skylt að fara eftir skilaboðunum, hvort þau fari eftir þeim í raun eða hvort skilaboðin varði aðeins hluta þeirrar starfsemi sem aðildarfyrirtækin stunda. Það sem ræður úrslitum er hvort skilaboðin eru fallin til þess að beina markaðshegðun fyrirtækjanna í einn farveg með þeim hætti sem getur takmarkað samkeppni.
Hafi fyrirtækjasamtök agavald yfir meðlimum sínum eru meiri líkur til þess að þeir telji sig bundna af skilaboðum frá samtökum sínum sem leiðir að jafnaði til sterkari samhæfingaráhrifa.
Það ræðst af aðstæðum í hverju tilviki hvort skilaboð frá fyrirtækjasamtökum sem varða samkeppnisforsendur eins og verð, framleiðslu og sölu eða kostnað eru lögleg eða ekki. Í köflum 3.2 – 3.5 hér á eftir er gerð grein fyrir því til hvers þurfi að líta við mat á lögmæti skilaboða.
Áður en lengra er haldið er þó rétt að ítreka að skilaboð fyrirtækjasamtaka sem að öðru jöfnu yrðu talin brjóta gegn 10 gr. og 12. gr. samkeppnislaganna geta eftir atvikum verið lögleg vegna undanþáguákvæðisins í 15. gr. samkeppnislaganna.
Verð
Ef fyrirtækjasamtök koma skilaboðum á framfæri sem hafa þýðingu fyrir verðákvarðanir aðildarfyrirtækjanna, getur það takmarkað samkeppni þar sem að það gerir aðildarfyrirtækjunum kleift að sjá fyrir hvaða verðstefnu keppinautar þeirra muni fylgja. Skilaboð fyrirtækjasamtaka sem varða verð falla því undir bannákvæði samkeppnislaganna með sama hætti og upplýsingaskipti milli fyrirtækjanna sjálfra um verð myndi gera. Yfirleitt þarf ekki að meta hvort verðskilaboðin hafi í raun raskað samkeppni þar sem skilaboð sem hafa þýðingu fyrir verðákvarðanir fyrirtækja eru að jafnaði talin hafa að markmiði að takmarka samkeppni.
„Verðsamkeppni er kjarni samkeppnisréttarins og gerir 10. gr. samkeppnislaga ríka kröfu um sjálfstæði varðandi alla þætti verðlagningar. Ákvæðið er því brotið ef fyrirtæki hafa samráð um hvers konar atriði sem tengjast verðlagningu þeirra. … Upplýsingaskipti falla hér undir, sbr. einnig [nýjan dóm] dómstóls ESB frá því í mars 2015 í Dole málinu. Í áliti Kokott aðallögsögumanns í því máli kom fram að upplýsingaskipti milli keppinauta um atriði sem hafa þýðingu fyrir verðákvörðun feli í sér einkar skýrt brot á reglunni um sjálfstæði keppinauta og sú regla sé undirstaða virkrar samkeppni. …. Er því sérstaklega skýrt í samkeppnisrétti að upplýsingaskipti sem hafa þýðingu fyrir verðákvörðun teljast hafa það að markmiði að raska samkeppni.“[1] |
Dæmi: Ólögleg skilaboð um yfirvofandi hækkanir á matarverði
Á vettvangi Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) fóru fram umræður um verðlagsmálefni aðildarfyrirtækja sem störfuðu á sviði matvöru innan FÍS. Einnig var fjallað um þörfina fyrir að koma sjónarmiðum heildsalanna á framfæri í allri umfjölluninni um hækkandi matvöruverð og hvernig best væri að fjalla um málið á opinberum vettvangi og hvernig best væri að stýra umræðunum. Í kjölfarið birtust fréttir í fjölmiðlum þar sem m.a. var vitnað í framkvæmdastjóra FÍS og fjallað um málið undir fyrirsögninni „Matarverð að hækka um 30%.“ Lét framkvæmdastjórinn hafa eftir sér að það kæmi honum ekkert á óvart ef matarverð myndi hækka um 20-30% á allra næstu vikum og mánuðum. Samkeppniseftirlitið taldi að þessi umfjöllun innan FÍS og hin opinberu skilaboð fælu í sér brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Málinu lauk með sátt.[2]
|
Matið á lögmæti skilaboða sem varða verð ræðst af öðru leyti af því hvernig þau eru kynnt, hvernig þau eru sett fram og hvers konar verðlagningu þau varða. Hér á eftir eru tilgreind dæmi um skilaboð um ýmsar tegundir verðlagningar sem að jafnaði myndu teljast ólögleg.
Fast verð
Ef fyrirtækjasamtök dreifa skilaboðum um verð til samtaka, t.d. í formi samþykktrar verðskrár með föstum verðum sem ætlast er til að aðildarfyrirtækin noti strax eða síðar, brýtur það gegn 10. og 12 gr. samkeppnislaga.
Dæmi: Ólögleg verðskrá
Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) gaf út verðskrá fyrir organistadeild félagsins. Í verðskránni voru tilgreind föst verð fyrir organleik í kirkjum við útfarir og brúðkaup. Útgáfa gjaldskrárinnar braut gegn 10. gr. sbr. 12. gr. samkeppnislaga og var FÍH gert að greiða kr. 100.000,- í sekt til ríkissjóðs.[3]
|
Leiðbeinandi verð
Samþykktir fyrirtækjasamtaka um leiðbeinandi verðskrár eða ráðleggingar um leiðbeinandi verð á tilteknum vörum eða þjónustuþáttum eru ekki heimilar samkvæmt samkeppnislögum. Öll skilaboð til eða á milli fyrirtækja á sama sölustigi um leiðbeinandi verð eru fallin til þess að stýra verðlagningu og draga þar með úr samkeppni þar sem skilaboðin hafa óhjákvæmilega áhrif á verðákvarðanir meðlima samtakanna.
Dæmi: Ólögleg leiðbeinandi verðskrá
Á vettvangi félagsins Jeppavinir, félags fyrirtækja sem stunda ferðaþjónustu á sérútbúnum torfærubifreiðum, var rætt um hvernig best væri að útfæra gjaldskrár fyrir akstur í jeppaferðum með ferðamenn og hvert gjald fyrir þær skyldi vera að lágmarki. Höfðu samtökin og nokkur aðildarfyrirtæki samtakanna samráð um gerð og birtingu leiðbeinandi verðskráa, samræmdu viðskiptaskilmála og áttu í öðrum samskiptum um verðlagningu. Gjaldskrárnar sem samkomulag náðist um voru sendar meðlimum á póstföng þeirra. Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins fólu þessi samskipti í sér brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Málinu lauk með sátt og bæði samtökin sjálf og aðildarfélögin greiddu sektir í ríkissjóð.[4]
|
Eftir gildistöku samkeppnislaga nr. 8/1993 sóttu mörg starfsgreinafélög um undanþágu til að mega gefa út leiðbeinandi verðskrár til notkunar í viðkomandi grein. Meðal þessara félaga voru Tannlæknafélag Íslands, Félag íslenskra arkitekta, Lögmannafélag Íslands, Samtök dagmæðra, Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samband íslenskra tannsmíðaverkstæða. Öllum undanþágubeiðnunum var hafnað þar sem undanþáguskilyrði voru ekki uppfyllt.
Dæmi: Ólöglegt að miða við gjaldskrá sem er fallin úr gildi
Lögmanafélag Íslands fékk til úrskurðar kvörtun vegna gjaldtöku lögmanns. Við mat á hvað teldist hæfileg þóknun fyrir vinnu lögmannsins leit stjórn LMFÍ til leiðbeinandi gjaldskrár félagsins sem hafði verið í gildi áður en fyrstu samkeppnislögin tóku gildi sem bönnuðu slíkar gjaldskrár. Samkeppnisráð sagði að sú háttsemi stjórnar Lögmannafélags Íslands að bera saman gjaldtöku einstakra lögmanna við gjaldskrárliði í gjaldskrá L.M.F.Í. frá 1. júlí 1992 til að meta hvað talist geti „hæfilegt endurgjald“, leiddi til þess að hinni ólögmætu gjaldskrá væri í raun viðhaldið. Umrædd háttsemi Lögmannafélagsins væri því til þess fallin að draga úr samkeppni milli lögmanna. Hún braut því gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga.[5]
|
Lágmarksverð
Hvers konar skilaboð fyrirtækjasamtaka um lágmarksverð brjóta gegn 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Lágmarksverð eins og nafnið bendir til er verð sem bannað er eða ráðlagt er að selja ekki undir. Bannið við skilaboðum um lágmarksverð gildir án tillits til þess hvort lágmarksverðið er kynnt aðildarfyrirtækjunum sem leiðbeinandi lágmarksverð eða bindandi lágmarksverð.
Dæmi: Ólöglegt bann í siðareglum við undirboðum
Í siðareglum félags löggiltra endurskoðenda í Danmörku var ákvæði sem bannaði félagsmönnum að afla sér endurskoðunarverkefna eða ráðgjafarþjónustu með því að bjóða þóknanir undir því sem almennt væri tekið fyrir viðkomandi þjónustu í greininni. Þetta var talið brjóta gegn þeim ákvæðum danskra samkeppnislaga sem samsvara 10. og 12. gr. íslensku samkeppnislaganna.[6]
|
Dæmi: Ólöglegt að leiðbeina um og ráðleggja notkun lágmarksverðs
Félag jólatrjáaræktenda í Danmörku sendi út fréttabréf þar sem ein fyrirsögnin var: Hvað kemur svo í hlut félagsmanna í ár? Í fréttinni var síðan rakið hvaða verð hafi fengist á síðasta ári og síðan endaði fréttin á þeirri ráðleggingu að rétt verðákvörðun þurfi að taka mið af markaðsaðstæðum og því að verðin virðast, samkvæmt þeim fáu sölum sem hafa átt sér stað, ætla að verða í kringum kr. [xx] per fet í hinum ýmsu tegundum. Fyrir þetta og fleira sem samtökin birtu á heimasíðu sinni voru þau og framkvæmdastjóri þeirra dæmd í sekt fyrir samkeppnislagabrot.[7]
|
Hámarksverð
Skilaboð frá fyrirtækjasamtökum sem varða eða tengjast hámarksverði brjóta gegn 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Ef fyrirtækjasamtök koma t.d. á framfæri skilaboðum um æskilegt þak á álagningu, væri það brot á lögunum nema undanþága hafi verið veitt samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga. Það skiptir með öðrum orðum ekki máli hvort skilaboðin eru um leiðbeinandi eða bindandi hámarksverð.
Enda þótt hámarksverð komi í sjálfu sér ekki í veg fyrir verðsamkeppni á markaði þar sem aðildarfyrirtæki mega jú selja undir hámarksverðinu, eru skilaboð samtaka fyrirtækja sem lúta að slíkri verðlagningu fallin til þess að virka sem vegvísir fyrir þegjandi samhæfingu eða samstilltar aðgerðir um verðlagningu í viðkomandi grein. Hvati aðildarfyrirtækjanna til að selja á lægra verði myndi að jafnaði vera takmarkaður. Jafnframt getur hámarksverð falið í sér óbeina ráðleggingu um að hækka verð. Ef fyrirtækjasamtök mæla t.d. með að gilt hámarksverð hækki í takt við ársverðbólgu er mikil hætta á að aðildarfyrirtækin hækki verð sín árlega í samræmi við verðbólguna. Því er hætta á að ráðleggingar fyrirtækjasamtaka um tiltekið hámarksverð hafi áhrif til samhæfingar í verðlagningu og verðþróun á markaðnum.
Dæmi: Ólöglegt hámarksverð
Landssamtök tjaldstæðaeigenda í Danmörku samþykktu hámarksverð fyrir hjólhýsi og húsbíla sem skyldu gilda á „camping“ svæðum þeirra allra. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir of há verð sem myndi leiða til þess að fjöldi hjólhýsa- og húsbílaeigenda myndi „tjalda“ utan tjaldstæða sem bæði gæti truflað umferð og spillt fallegum svæðum. Þrátt fyrir göfugan tilgang samþykktarinnar taldi danska samkeppnisstofnunin að hún stangaðist á við samkeppnislög. [8]
|
Undanþágur frá banni við hámarksverði
Allar íslensku leigubílastöðvarnar sem bjóða þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á suðurnesjum hafa fengið tímabundnar undanþágur samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga til að gefa út sameiginlega ökutaxta fyrir bifreiðastjóra á viðkomandi stöð. Það eru þó ekki bifreiðastöðvarnar sjálfar sem ákveða hámarkstaxtana heldur hagsmunafélag bifreiðastjóra á hverri stöð. Hver leigubifreiðastjóri með stöðvarleyfi er í raun sjálfstætt fyrirtæki í skilningi samkeppnislaga og hver þeirra gæti í raun ákvarðað sinn taxta sjálfur.[9]
|
Verðlistar
Útgáfa og dreifing verðlista af hálfu samtaka fyrirtækja án tillits til dreifingarmáta og án tillits til þess hvort verð séu tilgreind sem leiðbeinandi eða bindandi verð er óheimil samkvæmt 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Tilgreini verðlisti hins vegar eingöngu hámarksverð kann hann að vera löglegur sbr. það sem segir um undanþáguskilyrði samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga og það sem segir hér á undan um hámarkstaxta leigubifreiðastöðva.
Afslættir
Ákvörðun um afslátt er verðákvörðun. Því eru allar samþykktir og upplýsingar milli fyrirtækja um afslætti og afsláttarprósentur ólöglegar.
Dæmi: Ólögleg ákvörðun fyrirtækjasamtaka um sameiginlegt afsláttartilboð
Klasi hf., sameiginlegt félag nokkurra apóteka, sendi inn á öll á heimili landsmanna auglýsinga- og kynningarrit sem bar heitið „Apótekið“. Auk þess lá ritið frammi í velflestum apótekum. Á forsíðu og baksíðu kynningarritsins var rækilega gerð grein fyrir 20% sumarafslætti apótekanna. Á innsíðum voru kynntar ýmsar snyrti- og hreinlætisvörur og tilgreint hvaða vörur væru seldar með 20% afslætti. Í ákvörðunarorði Samkeppnisráðs sagði m.a.: „Með útgáfu kynningarritsins „Apóteksins“, þar sem neytendum er boðinn samræmdur 20% afsláttur af nánar tilgreindum vörum, hafa Klasi hf. annars vegar og einstök apótek sem hlut eiga í fyrirtækinu hins vegar, gerst brotleg við bannákvæði IV. kafla samkeppnislaga.“[10]
|
Framleiðsla og sala[11]
Það er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækjasamtök upplýsi meðlimi sína um almenn atriði sem tengjast framleiðslu og sölustarfsemi í viðkomandi atvinnugrein. Slíkar upplýsingar geta verið um framfarir og nýjungar í framleiðsluaðferðum og markaðssetningu. Ráðleggingar og ábendingar um að tileinka sér nýjung myndu í flestum tilvikum samræmast samkeppnislögunum svo framarlega sem ekki fælist í því tilraun til að stilla saman aðgerðir eða til að takmarka nýsköpun og vöruþróun með einhverjum hætti.
Sama gildir um skilaboð um önnur almenn atriði sem varða framleiðslu- og sölustarfsemi aðildarfyrirtækja ef þau snerta ekki samkeppnisforsendur. Skilaboð sem lúta að t.d. að umhverfisvernd, vinnuvernd, góðum viðskiptaháttum og siðferði í viðskiptum og hvatning um að gera miklar kröfur í slíkum málum eru þannig fullkomlega leyfileg samkvæmt samkeppnisreglunum. Þetta á einnig við um ýmis konar upplýsingar og vitneskju sem þýðingu hefur fyrir starfsemi aðildarfyrirtækjanna, t.d. upplýsingar um verkföll og útflutnings- eða innflutningsbönn á mikilvægum mörkuðum. Þá myndu upplýsingar um hættur sem komið hafa í ljós í tengslum við tiltekna framleiðsluaðferð teljast eðlilegur hluti af þjónustu fyrirtækjasamtaka við meðlimi sína, enda þótt upplýsingarnar geti komið sumum aðildarfyrirtækjum betur en öðrum. Það er þó skilyrði sem endranær að fyrirtækjasamtökin hafi ekki með afskiptum sínum áhrif á samkeppnisforsendur með þeim hætti sem takmarkar samkeppni.
Dæmi: Leyfilegt að samþykkja skilyrði sem lúta að vinnuvernd
Samtök gosdrykkja- og ölframleiðenda leituðu álits á því hjá dönsku samkeppnisstofnuninni hvort þau mættu setja reglur um móttökuskilyrði hjá verslunum og veitingastöðum fyrir vörur þeirra þegar þær væru keyrðar út svo tryggt væri að heilsu bifreiðastjóranna væri ekki teflt í voða þegar þeir afhentu vörurnar. Samkvæmt hinum nýju reglum fengju móttökuaðilarnir sanngjarnan frest til að bæta aðstæður hjá sér fyrir móttöku á þungavöru, en væri það ekki gert yrðu vörurnar skyldar eftir á gangstéttinni fyrir utan. Danska samkeppnisstofnunin taldi að skilyrðin væru sanngjörn og eðlileg auk þess sem ekkert benti til þess að viðkomandi fyrirtæki hefðu samræmt afhendingarskilmála sína að öðru leyti. Samtökunum var því leyfilegt að setja þessar reglur og kynna þær verslunum og veitingastöðum.[12]
|
Fyrirtæki verða að ákveða aðgerðir sínar á markaðnum á grundvelli eigin forsendna. Það sem sker úr um hvort skilaboð fyrirtækjasamtaka til aðildarfyrirtækja sinna um framleiðslu og sölu eru lögleg er hvort skilaboðin geti, horft fram á við, haft áhrif á áætlanir og ákvarðanir þeirra á markaðnum þannig að samkeppni verði minni eða hverfi. Því myndi það brjóta gegn 10. og 12. gr. samkeppnislaga ef fyrirtækjasamtök hvettu fyrirtæki innan samtaka sinna til að takmarka framleiðslu til að geta verðlagt vörur sína hærra.
Dæmi: Ólöglegt að hvetja til takmörkunar á framboði
Samtök kartöflubænda í Danmörku hvöttu meðlimi sína til að taka ekki upp hluta uppskeru sinnar og takmarka þannig framboð í því skyni að að halda uppi verði. Þetta var talið fela í sér samráð um takmörkun og stýringu á framboði og samkeppnisyfirvöld í Danmörku sektuðu samtökin fyrir uppátækið.[13]
|
Fyrirtækjasamtök mega ekki senda frá sér skilaboð sem má skilja sem hvatningu, ábendingu, ráðleggingu eða tilmæli um að aðilar þeirra hagi sér með tilteknum hætti eða láti eitthvað ógert í atvinnustarfsemi sinni. Þannig bryti það gegn 10. og 12. gr. samkeppnislaga ef samtök hvetja aðildarfyrirtæki sín til að keppa ekki við hvert annað, hvort sem það er gert með beinum eða óformlegum hætti, t.d. í siðareglum eða samþykktum samtaka um góða viðskiptahætti.
Dæmi: Ólöglegt að hvetja til þess að keppa ekki um viðskiptavini kolleganna
Félag dýralækna í Danmörku var með ákvæði í siðareglum sínum þar sem sagði að það væru góðir starfshættir ef dýralæknar í félaginu létu vera að halda þeim sem viðskiptavinum sem aðrir dýralæknar vísuðu til þeirra, t.d. vegna sérfræðiþekkingar eða vegna þess að kollegi væri tímabundið forfallaður. Í siðareglunum sagði einnig að það væri góður starfssiður að opna ekki dýralæknastofu sem væri innan 15 km. radíusar frá stofu sem nýlátinn kollegi hefði rekið áður en hún væri seld, en þó þyrfti ekki að bíða lengur en í 6 mánuði til að sjá hvort dýrlæknastofan seldist. Hvoru tveggja var talið brjóta gegn samkeppnislögum.[14]
|
Dæmi: Ólöglegt að takmarka markaðssetningu félagsmanna
Samtök útfararstofa í Danmörku voru með ákvæði í samþykktum sínum þar sem sagði: (i) að samtökin ein mættu auglýsa þjónustu félagsmanna í sjónvarpi eða útvarpi, (ii) að mælst væri til þess að félagsmenn birtu ekki verð í auglýsingum í blöðum og tímaritum þar sem það gæti valdið misskilningi og (iii) að ekki mætti auglýsa að tilteknir liðir eða þættir í þjónustu félagsmanna væru ókeypis. Danska samkeppnisstofnunin úrskurðaði að ákvæðin brytu gegn þeim ákvæðum dönsku samkeppnislaganna sem samsvara 10. og 12. gr. íslensku samkeppnislaganna.[15]
|
Þá myndi það brjóta gegn 10. og 12. gr. ef fyrirtækjasamtök hvettu aðildarfyrirtæki sín til að takmarka sölustarfsemi sína, t.d. með því að nota ekki tilteknar dreifingarleiðir eða söluaðferðir og skiptir í því sambandi ekki máli þótt virðingarverðar ástæður kunni að liggja þar að baki. Sama gildir um hvatningu til viðskiptabanns (boykott) gagnvart tilteknum viðskiptavini eða birgi. Slíkar hvatningar eru fallnar til þess að eyða þeirri samkeppnislegu áhættu sem samkeppnislögin ganga út frá að eigi að fylgja sjálfstæðri ákvörðun hvers aðildarfyrirtækis fyrir sig um þegar dreifingarleiðir eða söluaðferðir eru valdar.
Dæmi: Ólöglegt að hvetja til þess að setja ekki verð inn á vefsíðu. Samtök bifreiðaverkstæða í Danmörku hvöttu verkstæði til að setja ekki inn upplýsingar um tilboð í viðgerðir á þjónustuvefsíðu bifreiðaeigenda þar sem bifreiðaeigendur gátu borið saman viðgerðarkostnað hjá hinum ýmsu verkstæðum. Hvatningin var birt í fagtímariti stéttarinnar og endurtekin á aðalfund stjórnar samtakanna. Samkeppnisyfirvöld í Danmörku töldu að í þessu fælist sameiginleg og samræmd áætlun um að hvetja meðlimi samtakanna til að nota ekki viðkomandi vefsíðu. Slík hvatning bryti gegn samráðsbanni dönsku samkeppnislaganna.[16]
Dæmi: Ólöglegt að hvetja til þess að selja ekki tilteknar vörur
Samtök atvinnulífsins í Danmörku lögðu fram 13 punkta áætlun fyrir hönd dagvörukaupmanna sem var liður í baráttunni gegn offitu og óheilbrigðum lífsháttum. Einn þátturinn í áætluninni var að fyrirtæki í greininni tækju ekki vítamínbætt matvæli í sölu. Danska samkeppnisstofnunin taldi að þetta jafngilti hvatningu til viðskiptabanns sem væri alvarlegt brot á samkeppnislögum.
|
Kostnaður[17]
Skilaboð fyrirtækjasamtaka sem varða kostnað og kostnaðarupplýsingar geta haft bein áhrif á verðlagningu aðildarfyrirtækjanna. Slík skilaboð geta haft samhæfingaráhrif og skert samkeppni milli fyrirtækjanna þar sem þau geta á sama hátt og beinar ráðleggingar um verð, virkað sem vegvísir fyrir útreikning og mat á vægi kostnaðarliða.
Almennar og hlutlausar upplýsingar um kostnað
Það er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækjasamtök upplýsi meðlimi sína með almennum hætti um kostnað sem fyrirtækin ráða engu um hver er og sem fyrirtækin geta ekki haft áhrif á. Þetta geta verið upplýsingar um hækkandi hráefnisverð, fréttir af þróun í alþjóðlegum kauphöllum, heimsmarkaðsverð á ýmsum afurðum og upplýsingar um skatta og gjöld, svo dæmi séu nefnd. Upplýsingar fyrirtækjasamtaka um kostnað teljast hlutlausar svo framarlega sem þar koma ekki fram væntingar um kostnaðarþróun (sbr. kafli 5 hér á eftir) eða annað sem líta má á sem hvatningu um tilteknar verðhækkanir.
Almennar yfirlýsingar af hálfu fyrirtækjasamtaka sem þáttur í umræðu í þjóðfélaginu – og við stjórnvöld- um að tilteknar kostnaðarhækkanir hljóti að lokum að lenda á neytendum, myndu að jafnaði ekki fara í bága við samkeppnislög. Þetta er þó með fyrirvara um að í slíkri yfirlýsingu felist ekki hvatning til ákveðinna verðhækkana og að hún tengist ekki verðhækkunaráformum viðkomandi samtaka fyrir hönd aðildarfyrirtækjanna.
Ólöglegt að hvetja til tiltekinna verðhækkana vegna kostnaðarhækkana
Ef í umfjöllun fyrirtækjasamtaka um kostnaðarhækkanir felst bein eða óbein hvatning til tiltekinna verðhækkana, brýtur það að jafnaði gegn 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Slík skilaboð eru talin bein eða óbein ráðlegging um hve mikla verðhækkun aðildarfyrirtækin geti með sanngirni farið fram á, og hún væri þar með fallin til þess – án þess að til frekari samskipta þyrfti að koma á milli aðildarfyrirtækjanna – að samræma verðlagningu þeirra. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi hvaða áhrif skilaboðin hafa, þ.e.a.s. hvort mörg, fá eða ekkert fyrirtækjanna taki mið af skilboðunum í verðákvörðunum sínum.
Dæmi: Ólögleg ályktun og umræða um verðhækkanir vegna kostnaðarhækkana
Í kjölfar Búnaðarþings 2008 birtist umfjöllun í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Sátt um hækkanir nauðsyn.“ Í fréttinni var fjallað um nýafstaðið Búnaðarþing og skýrt frá því að á þinginu hafi mikið verið rætt um hækkandi verð aðfanga í landbúnaði og sagt að vöruverðshækkanir á afurðum bænda væru óumflýjanlegar. Við rannsókn málsins af hálfu Samkeppniseftirlitsins kom m.a. í ljós að kjaranefnd Bændasamtakanna hafði ályktað að afurðaverð til bænda yrði að hækka í samræmi við aukinn tilkostnað og að fulltrúar á þinginu hefðu rætt og rökstutt á opinberum vettvangi ákveðna hækkunarþörf í tilteknum búgreinum og hvenær hækkanirnar þyrftu að koma til framkvæmda.
|
Bændasamtökin lögðu m.a. á það áherslu í svörum sínum til Samkeppniseftirlitsins að bændur hefðu ekki gert með sér neitt samkomulag um slíkar verðhækkanir og að þær væru einungis óhjákvæmileg afleiðing þess verulega kostnaðarauka sem hefði orðið. Um það hafi aðeins verið rætt og ályktað á Búnaðarþingi 2008. Þá héldu samtökin því fram að það væri beinlínis rangt að öll umfjöllun um verðlagsmálefni af einhverju tagi á vettvangi hagsmunasamtaka á borð við Bændasamtök Íslands geti talist hafa að markmið að takmarka samkeppni í skilningi samkeppnisréttar. Þá bentu samtökin á að þau ummæli sem voru viðhöfð af hálfu samtakanna og vísað var til í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins hafi einfaldlega verið of víðtæk og almenn til að unnt væri að álykta að þau hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á samkeppni.
Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins byggði hins vegar á því að aðgerðir BÍ hafi haft það að markmiði að raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga og að við beitingu ákvæðisins skipti ekki máli, þegar aðgerðir hafa að markmiði að raska samkeppni, með því t.d. að hafa áhrif á verð, hvort áhrifin hafi í raun komið fram. Málinu lauk með 10.000.000 króna sektargreiðslu í ríkissjóð.[18] |
Enda þótt upplýsingum um kostnaðarhækkanir fylgi ekki hugmyndir eða skoðanir af hálfu fyrirtækjasamtaka um hve mikla verðhækkun tiltekin kostnaðarhækkun kalli á, geta slík skilaboð engu að síður verið í andstöðu við 10. og 12. gr. samkeppnislaganna. Á þetta einkum við ef um er að ræða kostnaðarþætti sem hafa mismikla þýðingu fyrir fyrirtækin í greininni þar sem þau geta með rekstrarákvörðunum sínum haft áhrif á vægi viðkomandi kostnaðarliða í sinni starfsemi. Við slíkar aðstæður geta almennar upplýsingar um kostnaðarhækkanir virkað sem skilaboð um hve mikla verðhækkun aðildarfyrirtækin geti rökstutt fyrir viðskiptavinum sínum og þar með væru upplýsingarnar, án þess að til frekari samskipta þyrfti að koma á milli aðildarfyrirtækjanna, fallnar til þess að samhæfa verðlagningu þeirra þar sem öll fyrirtækin gætu notað sama rökstuðninginn til að hækka verð án tillits til hækkunarþarfar hvers og eins.
Dæmi: Ólöglegt ákvæði um samræmingu og skiptingu á kostnaðarhækkunum
Með stoð í samþykktum sínum ákváðu samtök heildsala með raflagnaefni í Hollandi á sex mánaða fresti hve mikið fyrirtæki innan samtakanna mættu hækka reikninga sína fyrir seldar en óafhentar vörur til rafverktaka vegna verðhækkana frá birgjum. Tilgangur þessa fyrirkomulags var að dreifa áhættunni milli heildsalanna og rafverktakanna af slíkum verðhækkunum á gildistíma verksamninga um byggingarframkvæmdir sem að jafnaði væri langur. Einstaka fyrirtæki innan samtakanna gátu því ekki sjálf ákveðið hvort og að hvaða marki þau gæfu út aukareikninga vegna verðhækkana frá birgjum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taldi að þetta fyrirkomulag bryti gegn því ákvæði Rómarsáttmálans sem bannar samráð.[19]
|
Efnahagsleg ólga – aukin hætta á ólöglegum skilaboðum
Dæmin tvö í þessum kafla um ólöglega hvatningu af hálfu Félags íslenskra stórkaupmanna og Bændasamtaka Íslands til verðhækkana eru frá þeim tíma sem miklar sviptingar voru í íslensku efnahagslífi. Samkeppniseftirlitið tók bæði málin til rannsóknar í mars 2008. Málin urðu tilefni fréttatilkynningar frá Samkeppniseftirlitinu þar sem einkar skýrt kemur fram hvers forsvarsmenn fyrirtækjasamtaka og fyrirtækja þurfa að gæta í umfjöllun um verðlagsmál á opinberum vettvangi:
„Að undanförnu hefur talsvert verið fjallað um hækkun á verði á ýmsum tegundum af vöru og þjónustu. Af þessu tilefni vill Samkeppniseftirlitið árétta að umfjöllun og upplýsingaskipti milli keppinauta um verð, væntingar um verðlag eða fyrirætlanir um breytingar á verði, geta raskað samkeppni og skaðað hagsmuni neytenda. Hið sama getur átt við um umfjöllun á opinberum vettvangi ef fyrirsvarsmenn fyrirtækja gefa t.d. nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaðar verðhækkanir eða lýsa yfir vilja til verðhækkana. Þannig getur slík umfjöllun verið til þess fallin að hvetja keppinauta á markaði til verðhækkana og stuðlað að ólögmætu samráði.
Sömuleiðis getur umfjöllun af þessu tagi á vettvangi samtaka fyrirtækja varðað við samkeppnislög, sem banna samtökum fyrirtækja að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Í banni samkeppnislaga við samráði felst að fyrirtæki ákveði að öllu leyti sjálfstætt hvernig þau hegði sér á markaði og hvernig þau verðleggi vörur sínar og þjónustu. Mega samtök fyrirtækja með engu móti vinna gegn þessu sjálfstæði félagsmanna sinna með því t.d. að hvetja til eða réttlæta verðhækkanir. Í þessu ljósi telur Samkeppniseftirlitið afar mikilvægt að forsvarsmenn fyrirtækja og samtaka fyrirtækja gæti þess sérstaklega að opinber umfjöllun af þeirra hálfu feli ekki í sér beina eða óbeina hvatningu til verðhækkana á viðkomandi markaði. Slík háttsemi er til þess fallin að valda neytendum og atvinnulífinu tjóni.“ (Úr fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins frá 27. mars 2008).
|
[1] Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, Brot BYKO ehf. á 10. gr. samkeppnislaga, bls. 63.
[2] Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 5/2009, Brot Félags íslenskra stórkaupmanna á 12. gr., sbr. 10. gr.
samkeppnislaga nr. 44/2005.
[3] Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 5/2006. Síðar á árinu 2006 sótti FÍH um undanþágu á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga til að mega gefa út samræmda verðskrá fyrir organistadeild félagsins vegna organleiks við útfarir og við kistulagningu. Var undanþágan veitt.
[4] Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 30/2012, Brot Jeppavina og aðildarfyrirtækja félagsins á 10. og 12. gr. samkeppnislaga.
[5] Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 36/1997, Gjaldskrá Lögmannafélags Íslands. Staðfest með úrskurði Áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 16/1997.
[6] Ákvörðun dönsku samkeppnisstofnunarinnar frá 20. febrúar 2013, Foreningen Danske Revisorers kollegiale regler.
[7] Dómur Hæstaréttar Danmerkur frá 30. ágúst 2010 í máli 319/2009, Dansk Juletræsdyrkerforening.
[8] Ákvörðun dönsku samkeppnisstofnunarinnar frá 27. mars 2006, DK-Camps anvendelse af horisontal prisaftale.
[9] Sjá t.d. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 35/2014, Ósk leigubílastöðvarinnar Hreyfils um undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga til að gefa út sameiginlegan ökutaxta fyrir leigubifreiðar sem aka undir merki stöðvarinnar.
[10] Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 26/1995, Samræmt afsláttartilboð Klasa hf. og apóteka sem hlut eiga í Klasa.
[11] Sjá skilgreiningu í kafla 2.5.
[12] Ákvörðun dönsku samkeppnisstofnunarinnar frá 17. desember 2003, Pladsen til Kassen.
[13] Dómur undirréttar í Kolding frá 6. september 2011 í máli nr. 1-4944/2010, Dansk Kartoffelproducentforening.
[14] Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í Danmörku frá 9. desember 2013, Den Danske Dyrlægeforening.
[15] Ákvörðun dönsku samkeppnisstofnunarinnar frá 22. desember 2010, Brancheforeningen Danske Bedemænds etiske regler.
[16] Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í Danmörku frá 21. október 2014, Centralforeningen af Autoreparatörer i Danmark.
[17] Sjá skilgreiningu í kafla 2.5.
[18] Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 9/2009, Brot Bændasamtaka Íslands á banni samkeppnislaga við verðsamráði.
[19] Ákvörðun framkvæmdastjórnar EB frá 26. október 1999 í máli IV/33/884, Nederlandse Federative Vereniging voor de Groothandel op Elektrotechnisch Gebied and Technische Unie.