Author Archives: admin42

Lina M Kahn – Samkeppnisreglur á villigötum

Lina M Kahn er einna mest áberandi fræðimaðurinn í Bandaríkjunum í samkeppnisrétti (Antitrust) um þessar mundir. Hún heldur því fram að framkvæmd samkeppnisreglna í Bandaríkjunum hafi verið á villigötum um langt skeið. Það má segja að Kahn sé að taka við keflinu af Elanor M. Fox sem harðasti gagnrýnandi antitrust-framkvæmdar eins og hún hefur verið í Bandaríkjunum frá Reagan tímanum.
Hér er mjög athyglisvert viðtal við Elanor M. Fox.

Greinin sem skaut Lina M Kahn upp á stjörnuhimininn

A B ST R AC T. Amazon is the titan of twenty-first century commerce. In addition to being a re- tailer, it is now a marketing platform, a delivery and logistics network, a payment service, a credit lender, an auction house, a major book publisher, a producer of television and films, a fashion designer, a hardware manufacturer, and a leading host of cloud server space. Although Amazon has clocked staggering growth, it generates meager profits, choosing to price below-cost and ex- pand widely instead. Through this strategy, the company has positioned itself at the center of e- commerce and now serves as essential infrastructure for a host of other businesses that depend upon it. Elements of the firm’s structure and conduct pose anticompetitive concerns -yet it has escaped antitrust scrutiny.”

Lina M Kahn

Amazon’s Antitrust Paradox

Yale Law Journal, Vol. 126, 2017

Mikilvægur dómur Hæstaréttar í Bykómálinu

Dómurinn er m.a. mikilvægur vegna túlkunar sinnar á gildi samkeppnisreglna EES samningsins hér á landi.

Skilyrðið um áhrif á viðskipti er sjálfstætt skilyrði EES-réttar sem ber að meta með sjálfstæðum hætti í hverju máli. Skilyrðið takmarkar gildissvið 53. gr. EES-samningsins við samninga og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif umfram tiltekið lágmark á viðskipti milli ríkja á því landsvæði sem EES-samningurinn tekur til.

Við mat á því hvort skilyrðið er uppfyllt ber að horfa til þess hvort unnt er að sjá fyrir, með nægjanlegum líkum út frá hlutlægum viðmiðum, að samningar eða samstilltar aðgerðir geti haft bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 16. júlí 2015 í máli C-172/14, ING Pensii. Þarf því ekki að sýna fram á að samningar eða samstilltar aðgerðir muni hafa eða hafi haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna heldur er nægilegt að þau séu til þess fallin að hafa slík áhrif. Meðal þeirra þátta sem þarf að meta er eðli samninganna og samstilltu aðgerðanna og þeirra vara sem þau taka til og stöðu hlutaðeigandi fyrirtækja á viðeigandi markaði.

 Samningar og samstilltar aðgerðir í skilningi 53. gr. EES-samningsins sem taka til eins EES-ríkis í heild geta venjulega haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 11. júlí 2013 í máli C-439/11 P, Ziegler gegn framkvæmdastjórninni.

Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að þau samskipti sem fjallað er um í málinu á milli gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi haft það að markmiði að raska samkeppni og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Líta verður á landið heilt og óskipt sem landfræðilegan markað málsins og náðu samkeppnishamlandi aðgerðir gagnáfrýjenda þannig til landsvæðis ríkis, innan Evrópska efnahagssvæðisins, í heild sinni.

Í ljósi þess að fyrirtækin voru í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins og aðgerðir þeirra beindust að vörum sem voru að stórum hluta fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum og endurseldar á Íslandi, auk þess sem þau gátu torveldað að mögulegir keppinautar frá öðrum EES-ríkjum næðu fótfestu á mörkuðum málsins, verður að telja að hin ólögmætu samskipti hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna í skilningi 53. gr. EES-samningsins. Af þessu leiðir að í málinu ber að beita ákvæði 53. gr. EES-samningsins samhliða 10. gr. samkeppnislaga.

Háttsemi gagnáfrýjandans Byko ehf. var því bæði í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins.

Markaðsráðandi staða

Skilgreining:

“[Fyrirtæki er markaðsráðandi hafi það] þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.”  (4. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga).

Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð og rík skylda hvílir á fyrirtækjum í slíkri stöðu að aðhafast ekkert sem raskað getur eðlilegri samkeppni. Ekki er tæmandi lýsing á því í samkeppnislögum hvers konar hegðun markaðsráðandi fyrirtækja telst ólögmæt. Flest mál sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu fjalla hins vegar um samninga sem fela í sér einkakaup, tryggðarákvæði eða undirverðlagningu.


Markaðsyfirráð – Misnotkun

Samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga er misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Í ákvæðinu eru tilgreind dæmi um misnotkun á markaðsráðandi stöðu:

 • krafist er ósanngjarns verðs, viðskiptakjara eða viðskiptaskilmála,
 • takmarkanir eru settar á framleiðslu, markaði eða tækniþróun sem neytendum til tjóns,
 • viðskiptaaðilum er mismunað með ólíkum skilmálum í sambærilegum viðskiptum og samkeppni þannig raskað,
 • skilyrði sett fyrir samningagerð, t.d. um að viðsemjandi taki á sig viðbótarskuldbindingar sem ekki tengjast efni samninganna. 

Einkenni athafna af framangreindu tagi eru að þær eru fallnar til þess að útiloka keppinauta frá markaði – og ef viðkomandi fyrirtæki er í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði, eða tengdum markaði, geturverið um misnotkun á markaðsráðandi stöðu að ræða. Upptalningin er hins vegar ekki tæmandi. á því hvers konar hegðun getur falið í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Algengustu samnigsskilmálar og viðskiptaaðferðir sem hafa útilokunaráhrif á markaði eru

 • ákvæði um einkakaup eða einkasölu – t.d. skuldbinding markaðsráðandi birgis um að viðskiptavinir kaupi eingöngu vöru eða þjónustu af honum.
 • tryggðarkjör – samningar um kjör, t.d. eftirágreiddan afslátt, þegar tilteknu magntakmarki er náð.
 • skaðleg undirverðlagning – t.d. þegar vara eða þjónusta er seld undir tilteknum kostnaðarviðmiðum, yfirleitt breytilegum kostnaði.
 • sértæk verðlækkun – verðlækkun sem beinist sérstaklega að viðskiptavinum keppinauta en tekur almennt ekki til viðskiptavina hins markaðsráðandi fyrirtækis. Ekki skilyrði að verðlagning sé undir kostnaði.
 • verðmismunun – kaupendum mismunað í sambærilegum viðskiptum án þess að kostnaðarlegt hagræði eða aðrar málefnalegar ástæður réttlæti mismununina.
 • verðþrýstingur – Sem dæmi er fyrirtæki A markaðsráðandi á heildsölumarkaði en starfar einnig á tengdum smásölumarkaði. Fyrirtæki A selur fyrirtæki B mikilvægt aðfang á heildsölumarkaði sem notað er til þess að bjóða til sölu vöru eða þjónustu á smásölumarkaði þar sem bæði fyrirtæki A og B eru keppinautar. Heildsöluverð sem fyrirtæki B þarf að greiða fyrirtæki A er svo hátt að það verð sem fyrirtæki A býður sínum viðskiptavinum í smásölu myndi ekki standa undir kostnaði ef smásöluhluti fyrirtækis A þyrfti að greiða sama heildsöluverð og fyrirtæki B.
 • Samtvinnun – t.d. þegar skilyrði fyrir sölu á vöru X er að vara Y sé einnig keypt án þess að málefnalegar forsendur séu fyrir því að vara Y sé keypt líka, s.s. að vara Y sé nauðsynleg fyrir virkni á vöru X.
 • Sölusynjun – t.d. synjun birgis um að eiga viðskipti við tiltekinn smásala og nánast er útilokað fyrir smásalann að verða sér út um vöruna eða sambærilega vöru hjá öðrum aðila.

Önnur tegund af misnotkun á markaðsráðandi stöðu er svonefnd arðránsmisnotkun (e. exploitative abuses). Er hún frábrugðin útilokandi misnotkun aðallega að því leyti að hún beinist beint að viðskiptavinum eða neytendum frekar en keppinautum. Dæmi um slíka misnotkun er of hátt verð eða okur. Einnig getur verið um að ræða ósanngjarna viðskiptaskilmála.

Markaðsráðandi staða er ekki bönnuð en sú skylda hvílir hins vegar á fyrirtækjum í slíkri stöðu að grípa ekki til neinna aðgerða sem raskað geta eðlilegri samkeppni. Eru þessar skyldur ríkari eftir því sem staða þeirra er sterkari. Brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu er ekki háð því að sýnt sé fram á skaðleg áhrif eða ásetning um að raska samkeppni. Ef hins vegar um þetta er að ræða getur það auðveldað að sýna fram á brot og viðbúið að viðurlög verði þyngri.

Beiting 11. gr. samkeppnislaga er umdeild enda getur ákvæðið falið í sér bann við hegðun sem almennt þykir æskileg, t.d. verðlækkun á vöru. Einnig vaknar sú spurning hvort tilgangurinn sé að vernda samkeppni eða keppinauta sem eru mögulega með óhagkvæman rekstur. Umræða hefur því verið um að leggja meiri áherslu á að meta samkeppnisleg áhrif aðgerða markaðsráðandi fyrirtækja. Enn sem komið er hefur þó framkvæmd í Evrópurétti, sem íslenskur samkeppnisréttur sækir fyrirmynd sína til, verið sú að byggja á hefðbundnu mati, þ.e. að ekki sé nauðsynlegt að sýna fram á skaðleg áhrif aðgerða.