Verður yfirtaka Haga á Olís leyfð?

Árið 2012 gaf Samkeppniseftirlitið út mikla skýrslu um dagvörumarkaðinn. Vinnan sem var lögð í þá skýrslu kemur að góðum notum núna þegar Samkeppniseftirlitið þarf að taka afstöðu til yfirtöku Haga á Olís. Fyrir þremur árum má ímynda sér að  Samkeppniseftirlitið hefði íhugað að ógilda svona samruna hefði hann komið til kasta þess þá. Núna, vegna innkomu Costco á markaðinn., verður það þó varla uppi á teningnum. Hins vegar verður að teljast líklegt að Samkeppniseftirlitið setji samrunanum skilyrði.

Kaup Haga á Olís hlýtur einkum að valda þeim birgjum áhyggjum sem selja matvörumörkuðum, “klukkubúðum”,  söluturnum og bensínstöðvum ýmsar dagvörur og hráefni í tilbúna rétti.

Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2012 var markaðshlutdeild Haga á dagvöruvörumarkaði á höfuðborgarsvæðinu um 60%. Það jafngildir markaðsráðandi stöðu. Líkur eru á að Samkeppniseftirlitið muni telja að svo hárri markaðshlutdeild í smásölu fylgi einnig markaðsráðandi staða á hluta aðfangamarkaðarins, nánar tiltekið í innkaupum á innfluttum vörum af heildsölum og vörum frá íslenskum mat- og drykkjarvöruframleiðendum.

Ein af niðurstöðum fyrrnefndrar skýrslu var að vísbendingar væru um að „mikill kaupendastyrkur einstakra verslanasamstæðna eða verslanakeðja leiði til meiri munar á verði til smásöluverslana en réttlætanlegt sé á grunni beins magnhagræðis.“ Þar segir einnig að „vafasamt [væri] að viðskiptakjör birgja til smásöluverslana styðjist í öllum tilvikum við málefnaleg sjónarmið.“

Þá benti Samkeppniseftirlitið einnig á það í skýrslunni að samkeppnisaðstæðum á dagvörumarkaði gæti almennt verið ábótavant þegar samningsstaða einstakra verslanasamstæðna eða verslanakeðja er svo sterk að þær njóti hlutfallslega betri kjara hjá birgjum en réttlætanlegt geti talist með hliðsjón af magnhagræði. Í skýrslunni segir einnig að líkur væru á að samkeppnisaðhaldi sé ábótavant ef verslunarfyrirtæki sem nýtur mikils kaupendastyrks leggur meira á vörur sínar en almennt gerist, þ.e. getur haldið eftir meginhluta ábatans af kaupendastyrk sínum.

Það fer ekki hjá því að kaupendastyrkur Hagakeðjunnar, sem þegar er mikill, muni aukast töluvert við yfirtökuna á Olís. Það mun auka möguleika Haga á að beita viðskiptaaðferðum sem geta gert keppinautum og birgjum erfitt um vik þannig að það jafngildi röskun á samkeppni í skilningi samrunareglna samkeppnislaganna.

Meðal þeirra spurninga sem vakna vegna kaupa Haga á Olís, er hvort afsláttur hjá Olís verði skilyrtur við kaup á dagvöru í verslunum Haga. Mun Kaupás síðan fylgja í kjölfarið og kaupa Skeljung eða N1 og setja svipaða viðskiptaskilmála? Slík binding viðskiptavina við viðkomandi viðskiptahring gæti takmarkað tækifæri Costco til að veita íslensku verslunarsamstæðunum samkeppni.

Með hliðsjón af niðurstöðum Samkeppniseftirlitsins í skýrslunni frá 2012 sem og lýsingu þess á markaðsstöðu Hagasamsteypunnar í málum sem komið hafa til kasta Samkeppniseftirlitsins á undaförnum árum, verður að telja að Samkeppniseftirlitið muni setja samruna Haga og Olís skilyrði með það fyrir augum að draga úr neikvæðum áhrifum samrunans á samkeppni á dagvörumarkaði og aðfangamarkaði dagvöru.

Eggert B. Ólafsson (27. apríl 2017).