Samráð

upplysingamidlun_forsidaSamkeppnisráðgjöf hefur gefið út handbók um sem ber heitið Upplýsingamiðlun, fyrirtækjasamtök og fyrirtæki – samkeppnisreglur. Handbókin með viðauka er 93 blaðsíður. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa handbókina geta sent póst á olafsson@samkeppnisradgjof.is.
Verðið er kr. 24.000,- + vsk.

Hér er hægt að panta bókina.

Handbókin hefst á þessum formála:

Eigi samkeppnislög að þjóna tilgangi sínum og efla virka samkeppni neytendum og þjóðfélaginu til hagsbóta þurfa þeir aðilar sem lögin taka til að þekkja lögin og hegða sér  í samræmi við þau. Áhrif samkeppnislaga verða hins vegar ekki mæld í fjölda samkeppnislagabrota sem koma til kasta samkeppnisyfirvalda eða fjárhæð sekta. Fjöldi samkeppnisbrotamála hér á landi ber vissulega vott um virkt eftirlit með að farið sé að samkeppnislögum en um leið er mikill málafjöldi og alvarleg brot vísbending um að fyrirtæki geri sér almennt ekki nægjanlega góða grein fyrir þeim skorðum sem samkeppnisreglurnar setja athöfnum þeirra.

Flest bendir til þess að samkeppnislagabrot hér á landi séu fremur framin af gáleysi en ásetningi. Þetta má m.a. ráða af þeim samkeppnismálum sem varða upplýsingamiðlun fyrirtækjasamtaka og fyrirtækja sem samkeppnisyfirvöld hafa tekið til meðferðar og gerð er grein fyrir í þessari handbók. En vanþekking  á samkeppislögunum afsakar ekki brot á þeim frekar en gildir um önnur lög. Það er því brýnt að auka fræðslu og leiðbeiningar til fyrirtækja um efni samkeppnisreglnanna en það er einmitt markmiðið með þessari handbók. Með aukinni þekkingu á samkeppnisreglum fækkar gáleysisbrotum og um leið eykst ávinningur neytenda og þjóðfélagsins alls.

Lykillinn að þekkingu eru upplýsingar. Það er vel við hæfi að fyrsta handbók Samkeppnisráðgjafar um samkeppnisreglur fjalli um upplýsingastarfsemi fyrirtækjasamtaka sem að jafnaði gegna mikilvægu upplýsingahlutverki gagnvart aðildarfyrirtækjum sínum. Búi fyrirtækjasamtök yfir fullnægjandi þekkingu á hvað varast ber í starfsemi þeirra með tilliti til samkeppnisreglnanna eru samtökin ekki einungis færari um að forðast samkeppnislagabrot á eigin vettvangi, heldur eru þau jafnframt betur í stakk búin til að leiðbeina aðildarfyrirtækjunum um leyfilega hegðun á þeim mörkuðum sem þau starfa á. Þessi handbók ætti því að geta komið flestum ef ekki öllum fyrirtækjasamtökum hér á landi og aðildarfyrirtækjum þeirra í góðar þarfir.

Reykjavík, 1. september 2015

Georg Ólafsson

http://www.samkeppnisradgjof.is/handbok-upplysingaskipti/