Samráð og staðlar og staðlaðir skilmálar

Eggert B. Ólafsson

Johansen hús Reyðarfirði

Skilgreining: Staðlaðir samningsskilmálar og staðlar settir af fyrirtækjasamtökum

Staðlaðir samningsskilmálar eru skilmálar sem aðildarfyrirtækin geta notað í kaup- og sölusamningum fyrir ábyrgðir, skilgreiningu á göllum, gæðakröfum, þjónustu- og afhendingarskilmálum, fyrir skilarétt, takmörk ábyrgðar, framleiðandaábyrgð o.s.frv. Stundum eru nær öll ákvæði tiltekinnar samningstegundar stöðluð, í öðrum tilvikum eru aðeins nokkur þeirra stöðluð. Staðlar fyrirtækjasamtaka eru staðlar eða samningsform sem notuð eru í viðkomandi grein, t.d. um tæknilegar kröfur og gæðakröfur sem  framleiðsla, framleiðsluferlar eða þjónusta verður að uppfylla.

Staðlaðir samningsskilmálar

Í mörgum atvinnugreinum nota fyrirtæki staðlaða samningsskilmála í viðskiptasamningum sínum sem samtök þeirra semja. Staðlaðir samningsskilmálar geta bæði lækkað umsýslukostnað/viðskiptakostnað hjá fyrirtækjum og auðveldað viðskiptavinum að bera saman kjör. Staðlaðir samningsskilmálar geta einnig auðveldað fyrirtækjum að skipta um birgja.

Neikvæða hliðin á stöðluðum samningsskilmálum er að ekki verður um samkeppni að ræða á milli aðildarfyrirtækjanna um þau atriði sem staðlaður samningsskilmáli tekur til og þannig fækkar samkeppnisflötum á milli aðildarfyrirtækjanna. Slík samkeppnistakmörkun getur verið í andstöðu við samkeppnislög.

Það er háð mati í hverju tilviki hvort staðlað samningsákvæði er löglegt eða ekki. Stöðluð samningsákvæði geta takmarkað samkeppni ef þau steypa mikilvægum samkeppnisforsendum í eitt mót. Þetta gildir einkum um verð en aðrir staðlaðir samningsskilmálar geta einnig haft neikvæð áhrif á samkeppni. Þegar möguleikinn á verðsamkeppni er takmarkaður er það oft svo að aðrar samkeppnisforsendur fá aukið vægi. Ef staðall leiðir til einhæfara vöruúrvals og minni nýsköpunar kann það að fela í sér samkeppnistakmörkun.

Enda þótt talið verði að staðlað samningsákvæði takmarki samkeppni þarf það ekki að þýða að ekki megi nota það. Hafi samningsákvæðið ekki að markmiði að takmarka samkeppni, (sbr. kafla 2.1 að framan), og uppfylli það skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt 15 gr. samkeppnislaga, að mati Samkeppniseftirlitsins, þ. á m. skilyrðið um að neytendur fái sanngjarna hlutdeild í ávinninginum sem af notkun skilmálans leiðir, myndi notkun hans, á grundvelli slíkrar undanþágu, vera lögleg. (Sjá kafla 2.2. að framan).

 Samkeppnisforsendum steypt í sama mót

Ef staðlaður samningsskilmáli varðar samkeppnisforsendu sem er mikilvæg á viðkomandi markaði, eru líkur á að skilmálinn brjóti gegn 10. gr. samkeppnislaganna. Að jafnaði myndu skilmálar sem hafa áhrif á viðskiptakjör, t.d. ákvæði um leiðbeinandi verð, hámark afslátta, hvaða tegundir afslátta megi veita o.s.frv., teljast varða mikilvæga samkeppnisforsendu.

Staðlaðir samningsskilmálar sem hafa óbein áhrif á verð eins og ákvæði sem varða fresti, afhendingarskilmála, skilgreiningu á gæðum og þjónustu geta einnig verið ólögleg og skiptir þá ekki máli þótt það sé orðað svo af hálfu viðkomandi samtaka í skilaboðum til meðlima sinna, að ákvæðunum sé einungis ætlað að vera leiðbeinandi. Ef talið verður að slík ákvæði stýri markaðshegðun eða að þau takmarki svigrúm og hvata til að keppa í gæðum, kunna þau að stangast á við 10. gr. samkeppnislaga. Eins og endranær kann þó að vera að slík ákvæði, eftir atvikum m.a. vegna markaðsaðstæðna, uppfylli öll fjögur skilyrði 15. gr. samkeppnislaganna.

 Fyrirtækjasamtök þurfa því að gæta að því að samþykkja ekki stöðluð viðskiptakjör sem varða mikilvægar samkeppnisforsendur á viðkomandi markaði eða staðlaða samningsskilmála sem þrengja svigrúmið til samkeppni á grundvelli eins eða fleiri samkeppnisforsendna.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækjasamtök setji almenna samningsskilmála svo framarlega sem um hreinan samningsramma sé að ræða sem hefur ekki áhrif á mikilvægar samkeppnisforsendur. Þannig er heimilt að hanna rammasamning eða samningsform þar sem engar stærðir eða tölur eru settar inn fyrirfram heldur geri viðkomandi aðildarfyrirtæki það hvert fyrir sig með hliðsjón af fjárhagslegri og samkeppnislegri stöðu sinni á viðkomandi markaði

Dæmi: Vafasamt ákvæði um takmörkun ábyrgðar í stöðluðu tilboðsformi

Samtök malbiksframleiðenda í Danmörku létu semja staðlaðan fyrirvara til notkunar í tilboðum til sveitarfélaga í viðhaldsverkefni á umferðarþungum götum og vegum. Samkvæmt fyrirvaranum, sem fyrirtækjum innan samtakanna var í sjálfsvald sett að nota, yrði verktakinn ekki gerður ábyrgur fyrir ófyrirsjáanlegu tjóni sem mætti rekja til undirlags vegar sem verktakinn hefði ekki haft neitt að segja um hvert væri. Mat danska samkeppniseftirlitsins var að ekki væri unnt að útiloka að ákvæðið hefði neikvæð áhrif á samkeppni ef notkun fyrirvarans yrði útbreidd meðal verktaka. Skilmálinn væri tilkominn vegna áhættu sem tengdist útboðum í viðhaldsverkefni fyrir sveitarfélög vegna þess að erfitt væri að sjá fyrir umferðarálag og þar með hver viðhaldskostnaðurinn yrði á samningstímanum. Kostnaður í tengslum við ráðstafanir vegna slíkrar áhættu yrði hluti af verðútreikningum og staðlaður fyrirvari um takmörkun ábyrgðar gæti haft samræmingaráhrif á verð hjá keppinautunum. Í áliti sínu hafði samkeppnisstofnunin í huga að bæði samþjöppun og gagnsæi á markaðnum var mikið.[1]

 

Í leiðbeiningum ESA um lárétta samstarfssamninga segir að hafi staðlaðir samningsskilmálar hvorki (i) bein né óbein áhrif á verð, (ii) ekki sé skylt að nota þá í viðkomandi grein, (iii) allir innan greinarinnar hafi átt möguleika á að taka þátt í  ákvörðunum um  efni skilmálanna og (iv) megi  allir nota skilmálanna, sé ólíklegt að slíkir skilmálar verði taldir samkeppnistakmarkandi. Í hverju tilviki þarf þó skoða skilmálana með hliðsjón af öllum aðstæðum, þ.á m. með hliðsjón af  markaðsgerð. Í leiðbeiningunum segir einnig að staðlaðir skilmálar sem hafa að geyma ákvæði sem geti haft neikvæð áhrif á verðsamkeppni (t.d skilyrði um leyfilegar tegundir afslátta) yrðu að líkindum taldir samkeppnishamlandi. Í leiðbeiningum ESA eru jafnframt nefnd tvö tilvik þar sem gaumgæfa  þarf aðstæður áður en hægt er að skera úr um hvort samkeppnishamlandi áhrif staðlaðra ákvæða eru skaðleg í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES samningsins, (10. gr. samkeppnislaganna). Fyrra tilvikið varðar staðlaða skilmála sem hafa takmarkandi áhrif á vöruúrval og nýsköpun. Siðara dæmið varðar það þegar hið fasta eða staðlaða samningsákvæði er ráðandi þáttur í viðskiptunum og er því de facto ófrávíkjanlegt skilyrði, ætli  fyrirtæki sér að  starfa á viðkomandi markaði. Slíkt  de facto  skilyrði gætu t.d. falist  í því að í staðli er ákveðið hvað telst vera öruggt greiðslukerfi fyrir netverslun, skilyrðum um vörulýsingar eða reglur um skilarétt.

 

Dæmi: Stöðluð samningsskilyrði sem myndu vera lögleg

Samtök raforkudreifenda innleiða valkvæða skilmála sem ætlaðir eru til nota við sölu á raforku. Þegar skilmálarnir eru samdir er þess gætt að allir hagsmunaaðilar geti fylgst með og haft áhrif á efni þeirra og fyrirtækjum sé ekki mismunað. Skilmálarnir taka til hlutlausra atriða eins og tilgreiningar á notkunarstað, afhendingarstað og afhendingarspennu, auk ákvæða um afhendingaröryggi og aðferðir við uppgjör. Skilmálarnir taka ekki til verðlagningar að neinu leyti, þ.e. í þeim var hvorki að finna ákvæði um leiðbeinandi verð né önnur ákvæði um verðlagningu. Öllum fyrirtækjum í greininni er í sjálfsvald sett hvort og hvernig þau nota skilmálana. Það er ólíklegt að stöðluð samningsskilyrði af framangreindum toga yrðu talin hafa neikvæð áhrif á verð, gæði og vöruúrval.[2]

 

Kostir staðlaðra ákvæða

Það er oft unnt að færa góð rök fyrir því að leyfa beri staðlaða skilmála enda þótt þeir í sjálfu sér minnki svigrúmið til samkeppni á milli fyrirtækja og séu þannig samkeppnistakmarkandi. Stöðlun skilmála getur leitt til aukinnar hagkvæmni sem kemur neytendum til góða. Þeir geta auðveldað aðgang að markaði, þeir geta auðveldað neytendum að gera samanburð og staðlaðir skilmálar geta auðveldað neytendum að skipta um þjónustuaðila. Allt þetta getur haft hagkvæmni í för með sér og skilað neytendum beinum eða óbeinum ávinningi.

 Það er er hins vegar svo að bæði líkurnar á samkeppnishamlandi áhrifum og líkurnar á jákvæðum hagkvæmnisáhrifum af notkun staðlaðra skilmála aukast með aukinni markaðshlutdeild fyrirtækjanna sem nota skilmálana. Af þessum sökum er ekki unnt ákvarða nein almenn mörk, öryggismörk (e. safe harbour) fyrir notkun staðlaðra samningsákvæða. Því verður að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvort og þá hvaða samkeppnistakmörkun geti fylgt stöðluðum samningsákvæðum og, sé skilmáli metin samkeppnistakmarkandi, hvort hagur neytenda af notkun skilmálans vegur þyngra en hinn samkeppnislegi annmarki.

Staðlar settir af atvinnugreinasamtökum

 Það er almennt ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækjasamtök taki þátt í því með meðlimum sínum að innleiða staðla fyrir atvinnugreinina í þeim tilgangi að auka hagkvæmni og skilvirkni. Slíkir staðlar geta gert samkeppnina beittari og lækkað framleiðslu-, markaðs- og sölukostnað.

 Gerð og notkun staðla getur þó við ákveðnar aðstæður takmarkað samkeppni. Staðall sem innleiddur er af fyrirtækjasamtökum takmarkar samkeppni ef hann kemur í veg fyrir að aðildarfyrirtækin þrói eigin framleiðsluaðferðir eða selji aðrar vörur en þær sem eru í samræmi við kröfur staðalsins. Ef svo er, þá hamlar staðallinn vöruaðgreiningu (e. product differantiation), hvötum til nýsköpunar og fjölbreytni í vöruúrvali, auk þess sem slíkur staðall getur verið þröskuldur fyrir ný fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á markaðnum. Staðlar sem takmarka tækniþróun eru að jafnaði taldir brjóta gegn 10. gr. samkeppnislaganna.

 

Staðall sem uppfyllir eftirgreind skilyrði yrði að jafnaði ekki talinn takamarka samkeppni:

 

 

1.     Aðkoma að gerð staðals er opin öllum innan raða viðkomandi samtaka

2.     Ákvarðanir um efni staðalsins eru teknar með gagnsæjum hætti

3.     Fyrirtæki hafa val um það hvort þau noti staðalinn

4.     Þriðji aðili getur fengið aðild að staðli á sanngjörnum kjörum og án mismununar.

 

Á endanum ræðst það þó alltaf af mati á aðstæðum hverju sinni hvort staðall sem notaður er innan atvinnugreinar er löglegur eða ekki. Við það mat er fyrst litið til þess hvort hann takmarkar samkeppni, og ef svo er, hvort jákvæð áhrif hans á samkeppni vegi þyngra en samkeppnishamlandi áhrif hans. Sjá nánar um þetta það sem segir í kafla 2.2 að framan um undanþáguskilyrði 15. gr. samkeppnislaganna.

         [1] Álit dönsku samkeppnis- og neytendastofnunarinnar, 25. júní 2013, Vejledende udtalesle om brancheforeningens statistikker og standard forebehold

            [2] Leiðbeinandi reglur ESA um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum, mgr. 333.