Ógilding samruna Haga og Lyfju

Nokkrir lykilkaflar úr ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna Haga og Lyfju

Mismunur á smásölumarkaði með almennar  og  „sér“ snyrtitvörur  hér á landi og stærri ríkja í kringum okkur.

„Hagkaup er dæmi um smásala hér á landi sem selur í sömu verslun „sér“ og almennar vörur með aðgreindum hætti. Að mati Samkeppniseftirlitsins er hins vegar ljóst að íslenski hreinlætis- og snyrtivörumarkaðurinn er um margt sérstakur að því leyti að ekki eru starfandi á markaðnum stórar sérverslanir með mikið og fjölbreytt úrval hreinlætis- og snyrtivara, þ.e. þar sem bæði almennar og „sér“ hreinlætis- og snyrtivörur frá mörgum framleiðendum eru seldar og viðskiptavinir geta gert mest af sínum innkaupum í hreinlætis og snyrtivörum á einum og sama stað, líkt og algengt er erlendis. Dæmi um slíkar þekktar verslanakeðjur sem starfræktar eru erlendis mætti t.d. nefna Matas, Sephora og Boots. Umræddar verslanakeðjur selja allar mjög fjölbreytt úrval hreinlætis- og snyrtivara, bæði almennar og „sér“, frá mörgum þekktum framleiðendum. Verslanirnar selja fjölbreytt úrval innan hvers flokks, s.s. hvers konar förðunarvörur fyrir andlit, augu og neglur; hvers konar húðvörur fyrir andlit, hendur og líkama, þ. á m. andlitskrem, body lotion, sturtugel, sápur, svo og ilmi bæði fyrir karlmenn og konur. Auk þess eru ýmsar aðrar vörur seldar í verslununum sem flokkast sem hreinlætisvörur, s.s. tannvörur hvers konar, dömubindi o.fl. Þá selja Matas og Boots einnig ýmsar heilsuvörur, s.s. vítamín og bætiefni.

Þróunin hefur verið með þeim hætti hér á landi að lyfjaverslanir hafa að miklu leyti sinnt eftirspurn neytenda eftir alhliða verslun með fjölbreytt úrval hreinlætis- og snyrtivara í öllum undirflokkum, þ.e. förðunarvörum, húðvörum, hárvörum og öðrum hreinlætisvörum, frá mörgum framleiðendum. Erlendir framleiðendur hafa m.a. talið umgjörð þeirra fullnægja kröfum til að selja „sér“ hreinlætis-og snyrtivörur. Þá fullnægja hreinlætis- og snyrtivörudeildir verslana Hagkaupa, þrátt fyrir að verslunin flokkist almennt sem dagvöruverslun, einnig kröfum erlendra framleiðenda um sölu á „sér“ – hreinlætis – og snyrtivörum, og selja verslanir Hagkaupa fjölbreytt úrval bæði af almennum og „sér“ – hreinlætis- og snyrtivörum frá mörgum framleiðendum, meðan aðrar dagvöruverslanir gera það í óverulegum mæli. Eru verslanir Hagkaupa að þessu leyti mjög frábrugðnar öðrum dagvöruverslunum.“ (bls. 35 í ákvörðuninni).

Eggert B. Ólafsson