Ófullnægjandi eftirlit með samkeppnisbrotum

Ófullnægjandi eftirlit með samkeppnisreglum þýðir að möguleikar fyrirtækja og neytenda til að stefna samkeppnisbrotamálum beint fyrir dómstóla verða mikilvægari.

Samkeppniseftirlitið hefur nýlega sagt frá því að það geti ekki sinnt sem skyldi kvörtunum sem því berast vegna meintra samkeppnisbrota sökum mikils álags við afgreiðslu samrunamála. http://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/nr/2959.

Það er reyndar ekki nýtt að Samkeppniseftirlitið taki kvartanir ekki til efnislegrar umfjöllunar eða setji mál á ís í skjóli heimildar til að forgangsraða málum. Undirliggjandi ástæða þessa er án efa fyrst og fremst fjársvelti stofnunarinnar um langt skeið. Dráttur á að taka samkeppnisbrotamál til meðferðar getur verið jafnslæmur og frávísun (án þess að efnisleg afstaða sé tekin til kæruefnis) þar sem löngum málsmeðferðartíma fylgir sú að hætta að loks þegar Samkeppniseftirlitið kemur með niðurstöðu, hafi samkeppnisbrot þegar valdið neytendum og fyrirtækjum miklum skaða og jafnvel hrakið keppinauta af markaði. Þetta ástand hefur varað lengi.

Góður kostur að höfða mál beint fyrir íslenskum dómstólum og jafnvel einangra málatilbúnað við brot á samkeppnisreglum EES samningsins.

Ef gögn eru fyrir hendi eða tiltæk og málsatvik ljós eða með þeim hætti að þau verði sönnuð í dómsmáli, kann það að vera góður kostur að stefna samkeppnisbrotamali beint fyrir dómstól í stað þess að kæra fyrst til samkeppnisyfirvalda.

Samkeppnisreglur EES samningsins eru strangar bæði að því er varðar samninga og samstilltar aðgerðir sem hamla samkeppni (53. gr. ESS) og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, (54. gr. EES). Gildissvið (lögsaga)samkeppnisreglna EES-samningsins er auk þess vítt og íslenskir dómstólar eru skuldbundnir til að beita þeim geti viðkomandi aðgerð, athöfn eða athafnaleysi haft áhrif á viðskipti milli EES ríkja. Rúm túlkun á skilyrðinu um “áhrif á viðskipti milli EES-ríkja” þýðir að í raun taka samkeppnisreglur EES samningsins til nær allra meiriháttar samkeppnislagabrota sem framin eru hér á landi.

Hvað vinnst með því að stefna máli beint fyrir dómstóla?

  • Löng og tafsöm meðferð mála á stjórnsýslustigi fyrir Samkeppniseftirlitinu og áfrýjunarnefnd samkeppnismála er klippt út.
  • Samkeppniseftirlitið getur ekki úrskurðað um skaðabætur. Fyrir dómstól er hins vegar unnt að fá staðfestingu á að samkeppnislagbrot hafi verið framið og dóm um skaðabætur í einu og sama málinu.
  • Málarekstur fyrir dómstól og öflun álita frá ESA eða EFTA dómstólnum myndi að jafnaði taka mun skemmri tíma en að byrja mál hjá Samkeppniseftirlitinu og fara með það síðan fyrir dómstóla til að heimta bætur. Eftirlitsstofnun EFTA sem og EFTA dómstóllinn eru fljót að skila álitum til dómstóla – bindandi í raun – um efni og gildissvið 53. gr. og 54. gr. ESS samningsins og hvernig ákvæðin horfa við þeim spurningum sem bornar eru undir EES stofnanirnar.
  • Einfaldari málatilbúnaður og málarekstur. Með því að einskorða mál við samkeppnisreglur  EES samningsins er komið í veg fyrir að mál snúist hvort tveggja um íslenskan og evrópskan samkeppnisrétt og samspil samkeppnisreglna þessara tveggja lagakerfa með ófyrirséðum flækjum.  Það er hins vegar ekki hægt að komast hjá flækjum með því því að einskorða mál við íslenskar samkeppnisreglur því þær evrópsku gilda framar ef þær íslensku stangast á við þær.

Samkvæmt 28.gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið að eigin frumkvæði komið að skriflegum athugasemdum í dómsmáli vegna beitingar 53. og 54. gr. EES-samningsins. Hafi dómstóll hins vegar ákveðið að leita álits EFTA dómstólsins um efni þessara ákvæða og um hvernig beiting þeirra horfir við málsatvikum, fæst „milliliðalaust“ álit þeirrar stofnunar sem hefur síðasta orðið um efni EES reglna. Það skapar réttaröryggi og álit Samkeppniseftirlitsins væri óþarft.

Mál fyrir dómstólum sem byggir eingöngu á að 53. og eða 54. gr. EES samningsins hafi verið brotin, gefur því kost á skjótari, skýrari og einfaldari málsmeðferðmeðferð og beinum aðgangi að hinni endanlegu réttarheimild, EFTA dómstólnum.

Það kann því að vera ótvírætt þess virði fyrir hvern þann þann sem telur sig vera fórnarlamb samkeppnislagabrots að leggja mat á hvort háttsemi af hálfu keppinauts eða aðila sem hann er háður um viðskipti, geti falið í sér brot á samkeppnisreglum EES samningsins.

Eggert B. Ólafsson