Category Archives: Fréttir

samrunamál

Úr viðtali við Eggert B. Ólafsson í Viðskiptablaðinu

Fórnarlömb eigin velgengni

Aðalráðgjafi Samkeppnisráðgjafar segir ógildingu Samkeppniseftirlitsins á samruna Haga og Lyfju óvænta en vel rökstudda. Hann telur ólíklegt að eftirlitið muni hafna kaupum Haga á Olís annars vegar og kaupum N1 á Festi hins vegar.

Sjá þennan hlekk:

http://www.vb.is/frettir/fornarlomb-eigin-velgengni/139818/

Nú tíðkast hin breiðu spjótin

Samkeppniseftirlitið ógildir samruna Haga og Lyfju.

Eftir fimm tíðindalaus ár að því er varðar ógildingu á samrunum hefur Samkeppniseftirlitið (SE) nú bannað annan samrunann á rúmlega einum mánuði. Hinn 6. júní s.l. var birt ákvörðun SE um ógildingu á samruna frauðplastvöruframleiðendanna Tempru og Plastgerðar Suðurnesja. Í dag, 17. júlí, er svo  tilkynnt um ógildingu á risa-samruna Haga og Lyfju. Síðara málið sætir að sjálfsögðu meiri tíðindum. Fróðlegt verður að sjá rökstuðning SE fyrir banninu. Um hann verður fjallað hér á þessari síðu á næstu dögum.

 

Loksins loksins

Fyrsta ógilding samruna í tæp 5 ár.

Með ákvörðun sinni nr. 23/2017 ógilti Samkeppniseftirlitið samruna Tempru ehf. og Plastgerðar Suðurnesja ehf. Bæði fyrirtækin framleiða vörur úr frauðplasti en með samrunanum hefði  orðið til fyrirtæki með nánast einokunarstöðu á markaði fyrir framleiðslu og sölu á frauðplastkössum annars vegar og markaði fyrir framleiðslu og sölu á frauðplasteinangrun hins vegar.

Þetta er fyrsti samruninn sem Samkeppniseftirlitið ógildir í tæp 5 ár eða síðan það ógilti samruna Veritas Capital hf., Fastusar ehf. og Aðalkots ehf. í október 2012. Síðan 2005, þegar núverandi samkeppnislög tóku gildi, hefur aldrei svo langur tími liðið milli ógildinga á samrunum af hálfu Samkeppniseftirlitsins.

Það má ekki skilja fyrirsögina að ofan sem gagnrýni á Samkeppniseftirlitið og að verið sé að kalla eftir fleiri ógildingum á samrunum. Fækkun samruna sem ekki komast í gegnum nálaraugað hjá Samkeppniseftirlitinu segir þá jákvæðu sögu að fyrirtæki gera sér orðið betur grein fyrir því en áður hvaða skorður samrunareglur samkeppnislaga setja samrunum sem leiða til mikillar samþjöppunar á markaði. Fyrirtæki freista þess síður en áður að  fara út í samruna eða yfirtökur sem vafasamt er að hljóti náð fyrir augum samkeppnisyfirvalda. Það má kalla þessi áhrif samrunareglnanna hin passívu áhrif þeirra á meðan inngrip Samkeppniseftirlitsins í samruna, hvort sem þau felast í ógildingu samruna eða setningu skilyrða, eru hin aktívu áhrif samrunareglnanna. Hvoru tveggja stuðlar að markmiði samkeppnislaga að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins.

Sjá:

http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2017/Akvordun_23_2017_Samruni-Tempru-ehf-og-Plastgerdar-Sudurnesja-ehf.pdf

Eggert B. Ólafsson

Samkeppni milli netferðaskrifstofa (netbókunarfyrirtækja) – afskipti samkeppnisyfirvalda

Eggert B. Ólafsson

Þegar netferðaskrifstofum fór að vaxa fiskur um hrygg og samningsstaða þeirra gagnvart hótelum að styrkjast, hófu þær margarhverjar að setja ákvæði í skilmála sína sem miðuðu að því að tryggja að þær gætu ávallt boðið hótelgestum a.m.k. jafnhagstætt verð og öðrum bókunaraðilum stóð til boða.

Algengt ákvæði af þessu tagi er (var) svonefnt allsherjar jafnstöðuákvæði (wide parity clause) sem felur í sér að bókunaraðilanum skuli ávallt standa til boða af hálfu viðkomandi hótels lægsta herbergisverð sem í boði er og hlutfallslega sami fjöldi herbergja og aðrir bókunaraðilar hafa úr velja. Annað algengt ákvæði, en sem gengur skemmra, er svonefnt takmarkað jafnstöðuákvæði (narrow parity clause) sem lýsir sér í að hóteli er heimilt að gera mismunandi samninga við netferðaskrifstofur að þessu leyti, en því er hins vegar óheimilt að birta lægri verð á eigin heimasíðu.

Árið 2010 byrjuðu samkeppnisstofnanir í ýmsum  Evrópusambandsríkjum að skoða  jafnstöðuskilmála netferðaskrifstofa. Þessar athuganir urðu tilefni til afskipta sumra þeirra af skilmálunum. Þannig hefur þýska samkeppnisstofnunin bannað tveimur  stærstu netferðaskrifstofum þar í landi notkun jafnstöðuskilmála og stærstu netbókunarfyrirtækin í Frakklandi, Ítalíu og Svíþjóð hafa þurft að gera sáttir við samkeppnisyfirvöld þessara landa um að breyta jafnstöðuskimálum sínum á þann hátt að þeir falli í flokk takmarkaðra jafnstöðuákvæða. Þá má nefna að á síðasta ári var samkeppnislögum breytt í Austurríki  þannig að öll jafnstöðuákvæði af hálfu  netferðaskrifstofa voru lýst ógild og marklaus.

Almennt er talið að samkeppnisleg skaðsemi of víðtækra jafnstöðuákvæða í samningum bókunarfyrirtækja við hótel felist í skertri samkeppni milli bókunarfyrirtækja sem þegar hafa komið sér vel fyrir á markaðnum og í útilokun nýrra keppinauta frá markaði og takmörkun á vaxtamöguleikum minni netferðaskrifstofa. Nánar tiltekið dragi allsherjar jafnstöðuákvæði úr hvata netferðskrifstofa til að keppa í kjörum gagnvart hótelum, þ. á m. að því er varðar þóknanir fyrir að beina gestum til þeirra. Ef allsherjar jafnstöðuákvæði skyldar hótel til að bjóða öllum netbókunaraðilum sama verð, getur það ekki verðlaunað þá eða þær ferðaskrifstofur sem taka lægri þóknanir með lægra herbergisverði. Á sama hátt getur hótel ekki “refsað” bókunaraðila sem áskilur sér hærri þóknun með því að setja hærra verð á hótelherbergi sem hann býður. Þessa samkeppnistakmörkun er ekki unnt að leiðrétta með mismunandi herbergjaframboði þar sem jafnstöðuákvæði taka að jafnaði einnig til þess samkeppnisþáttar.

Takmarkað jafnstöðuákvæði á hótelbókunarmarkaði getur einnig skaðað samkeppni þar sem slíkt ákvæði er fallið til þess að viðhalda þeirri skertu samkeppni sem allsherjar jafnstöðuákvæði hefur þegar valdið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samkeppnisstofnanir í 10 aðildarríkjum sambandsins birtu nýlega skýrslu um samkeppni á markaði hótelbókana á netinu. Samkeppnisstofnanir í  Belgíu, Bretlandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Ítalíu, Hollandi og Svíþjóð og samkeppnisdeild framkvæmdastjórnarinnar lögðu efni til skýrslunnar á grundvelli samræmdra athugana sinna á netbókunarmarkaðnum 2016.

Tilgangur athugananna var að leggja mat hvaða áhrif afskipti samkeppnisyfirvalda af jafnstöðuákvæðum hafa haft á markaði hótelbókana á netinu. Könnunin tók til ýmissa aðferða hótela við að markaðssetja og leigja herbergi og áhrif mismunandi söluleiða og mismunandi umboðsþóknana til netbókunarfyrirtækja á herbergisverð og herbergjaframboð. Sendir voru spurningalistar til 16000 hótela, 20 netferðaskrifstofa, 11 metaleitarsíðna og 19 stórra hótelkeðja. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að afskipti samkeppnisyfirvalda af notkun jafnstöðuskilmálanna hafi almennt bætt samkeppnisskilyrði og aukið úrval neytenda.

Í ljósi þessara niðurstaðna munu evrópsk samkeppnisyfirvöld nota samstarfsnet sitt og -vettvang, European Competition Network,  til að fylgjast áfram náið með samkeppnisskilyrðum á markaði nethótelbókana.

(Sjá nánar: http://europa.eu/rapid/press-release_MEX-17-896_en.htm)