Category Archives: Samkeppnisreglur

Á Íslandi gilda samkeppnisreglur tveggja lagakerfa, ef svo má að orði komast, þ.e.a.s. samkeppnisreglur íslenskra samkeppnislaga og samkeppnisreglur EES samningsins.

Markaðsráðandi staða

Skilgreining:

“[Fyrirtæki er markaðsráðandi hafi það] þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.”  (4. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga).

Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð og rík skylda hvílir á fyrirtækjum í slíkri stöðu að aðhafast ekkert sem raskað getur eðlilegri samkeppni. Ekki er tæmandi lýsing á því í samkeppnislögum hvers konar hegðun markaðsráðandi fyrirtækja telst ólögmæt. Flest mál sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu fjalla hins vegar um samninga sem fela í sér einkakaup, tryggðarákvæði eða undirverðlagningu.


Markaðsyfirráð – Misnotkun

Samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga er misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Í ákvæðinu eru tilgreind dæmi um misnotkun á markaðsráðandi stöðu:

 • krafist er ósanngjarns verðs, viðskiptakjara eða viðskiptaskilmála,
 • takmarkanir eru settar á framleiðslu, markaði eða tækniþróun sem neytendum til tjóns,
 • viðskiptaaðilum er mismunað með ólíkum skilmálum í sambærilegum viðskiptum og samkeppni þannig raskað,
 • skilyrði sett fyrir samningagerð, t.d. um að viðsemjandi taki á sig viðbótarskuldbindingar sem ekki tengjast efni samninganna. 

Einkenni athafna af framangreindu tagi eru að þær eru fallnar til þess að útiloka keppinauta frá markaði – og ef viðkomandi fyrirtæki er í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði, eða tengdum markaði, geturverið um misnotkun á markaðsráðandi stöðu að ræða. Upptalningin er hins vegar ekki tæmandi. á því hvers konar hegðun getur falið í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Algengustu samnigsskilmálar og viðksiptaaðferðir sem hafa útilokuanráhrif á markaði eru

 • ákvæði um einkakaup eða einkasölu – t.d. skuldbinding markaðsráðandi birgis um að viðskiptavinir kaupi eingöngu vöru eða þjónustu af honum.
 • tryggðarkjör – samningar um kjör, t.d. eftirágreiddan afslátt, þegar tilteknu magntakmarki er náð.
 • skaðleg undirverðlagning – t.d. þegar vara eða þjónusta er seld undir tilteknum kostnaðarviðmiðum, yfirleitt breytilegum kostnaði.
 • sértæk verðlækkun – verðlækkun sem beinist sérstaklega að viðskiptavinum keppinauta en tekur almennt ekki til viðskiptavina hins markaðsráðandi fyrirtækis. Ekki skilyrði að verðlagning sé undir kostnaði.
 • verðmismunun – kaupendum mismunað í sambærilegum viðskiptum án þess að kostnaðarlegt hagræði eða aðrar málefnalegar ástæður réttlæti mismununina.
 • verðþrýstingur – Sem dæmi er fyrirtæki A markaðsráðandi á heildsölumarkaði en starfar einnig á tengdum smásölumarkaði. Fyrirtæki A selur fyrirtæki B mikilvægt aðfang á heildsölumarkaði sem notað er til þess að bjóða til sölu vöru eða þjónustu á smásölumarkaði þar sem bæði fyrirtæki A og B eru keppinautar. Heildsöluverð sem fyrirtæki B þarf að greiða fyrirtæki A er svo hátt að það verð sem fyrirtæki A býður sínum viðskiptavinum í smásölu myndi ekki standa undir kostnaði ef smásöluhluti fyrirtækis A þyrfti að greiða sama heildsöluverð og fyrirtæki B.
 • Samtvinnun – t.d. þegar skilyrði fyrir sölu á vöru X er að vara Y sé einnig keypt án þess að málefnalegar forsendur séu fyrir því að vara Y sé keypt líka, s.s. að vara Y sé nauðsynleg fyrir virkni á vöru X.
 • Sölusynjun – t.d. synjun birgis um að eiga viðskipti við tiltekinn smásala og nánast er útilokað fyrir smásalann að verða sér út um vöruna eða sambærilega vöru hjá öðrum aðila.

Önnur tegund af misnotkun á markaðsráðandi stöðu er svonefnd arðránsmisnotkun (e. exploitative abuses). Er hún frábrugðin útilokandi misnotkun aðallega að því leyti að hún beinist beint að viðskiptavinum eða neytendum frekar en keppinautum. Dæmi um slíka misnotkun er of hátt verð eða okur. Einnig getur verið um að ræða ósanngjarna viðskiptaskilmála.

Markaðsráðandi staða er ekki bönnuð en sú skylda hvílir hins vegar á fyrirtækjum í slíkri stöðu að grípa ekki til neinna aðgerða sem raskað geta eðlilegri samkeppni. Eru þessar skyldur ríkari eftir því sem staða þeirra er sterkari. Brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu er ekki háð því að sýnt sé fram á skaðleg áhrif eða ásetning um að raska samkeppni. Ef hins vegar um þetta er að ræða getur það auðveldað að sýna fram á brot og viðbúið að viðurlög verði þyngri.

Beiting 11. gr. samkeppnislaga er umdeild enda getur ákvæðið falið í sér bann við hegðun sem almennt þykir æskileg, t.d. verðlækkun á vöru. Einnig vaknar sú spurning hvort tilgangurinn sé að vernda samkeppni eða keppinauta sem eru mögulega með óhagkvæman rekstur. Umræða hefur því verið um að leggja meiri áherslu á að meta samkeppnisleg áhrif aðgerða markaðsráðandi fyrirtækja. Enn sem komið er hefur þó framkvæmd í Evrópurétti, sem íslenskur samkeppnisréttur sækir fyrirmynd sína til, verið sú að byggja á hefðbundnu mati, þ.e. að ekki sé nauðsynlegt að sýna fram á skaðleg áhrif aðgerða.

Inngangur að handbók um upplýsingaskipti og samkeppnisreglur

Fyrirtækjasamtök og atvinnugreinafélög gegna mikilvægu hlutverki í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Tilhögun og umfang starfsemi hinna ýmsu fyrirtækjasamtaka er eðli máls samkvæmt mismunandi en sameiginlegt flestum, ef ekki öllum, er þó að þau hafa að markmiði að vinna að framgangi viðkomandi atvinnugreinar og hagsmunum þeirra sem henni tilheyra. Það gera fyrirtækjasamtök með því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórnvöld í málum sem þau varða en annað mikilvægt hlutverk fyrirtækjasamtaka er að styðja við starfsemi aðildarfyrirtækja sinna með fræðslu, kynningum, ráðleggingum og upplýsingum af ýmsum toga. Síðarnefnda þáttinn í starfsemi fyrirtækjasamtaka má kalla einu nafni upplýsingamiðlun.

Það er ljóst að upplýsingamiðlun sem gerir fyrirtækin að betri fyrirtækjum og gerir þeim kleift að auka hagkvæmni í rekstri og innleiða bestu framkvæmd í starfsemi sinni, gerir þau hæfari til að keppa á markaði. Starfsemi sem hefur slík áhrif er því æskileg og samræmist markmiði samkeppnislaga.

Um leið verður að hafa í huga að samtök fyrirtækja eru mynduð af sjálfstæðum fyrirtækjum sem yfirleitt eru keppinautar hvers annars á markaði og upplýsingamiðlun á vegum samtaka þeirra má ekki verða til þess að draga úr þeirri samkeppni. Samkeppnisreglurnar gera miklar kröfur til fyrirtækja um sjálfstæði í ákvarðanatöku og upplýsingamiðlun og önnur samskipti milli fyrirtækja mega ekki leiða til þess að í stað samkeppni komi samvinna og samhæfð markaðshegðun. Það er því mikilvægt að fyrirtækjasamtök gæti að því að á þeirra vegum sé ekki miðlað upplýsingum og gögnum um samkeppnislega viðkvæm atriði sem varða verð, framleiðslu og sölu eða kostnað eða aðrar samkeppnisforsendur með þeim hætti sem getur takmarkað samkeppni.

Á undanförnum árum hafa samkeppnisyfirvöld hér á landi líkt og aðrar samkeppnisstofnanir á EES svæðinu lagt mikla áherlslu á að framfylgja banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði fyrirtækja og samtaka fyrirtækja. Í flestum ef ekki öllum málum þar sem samkeppnisyfirvöld hafa komist að niðurstöðu um að fyrirtækjasamtök og/eða fyrirtæki hafi gerst sek um ólögmætt samráð hefur upplýsingamiðlun af einhverju tagi verið þáttur í samráðsbroti og komið hefur fyrir að upplýsingaskipti ein og sér, og jafnvel einhliða upplýsingagjöf, hafi verið talin fela í sér samkeppnishamlandi samstillta aðgerð. Það má í raun orða það þannig að með auknu eftirliti með samráðsbrotum hafi ýmsar tegundir upplýsingamiðlunar og aðferðir við upplýsingaskipti lent inn á radar samkeppnisstofnana. Eykur það enn á nauðsyn þess að fyrirtækjasamtök, og meðlimir þeirra, séu meðvitaðir um hvað má og má ekki í upplýsingamiðlun.

Það er hins vegar svo að lögmæti upplýsingamiðlunar með tilliti til samkeppnisreglna ræðst ekki eingöngu af því hverju er verið að miðla, heldur getur ráðið úrslitum hvernig það er gert og hverjar markaðsaðstæður eru á þeim markaði sem viðkomandi fyrirtæki tilheyra. Það sem er lögmæt upplýsingamiðlun á einum markaði getur verið ólöglegt að gera á öðrum markaði. Upplýsingamiðlun má því líkja við svell eða sprungusvæði sem fara verður um með gát, ef ekki á illa að fara.

Tilgangur þessarar handbókar er að veita fyrirtækjasamtökum og aðildarfyrirtækjum þeirra yfirsýn og leiðsögn á þessu svelli samkeppnisreglnanna svo þau geti fótað sig betur á því.

Dönsk fyrirmynd

Fyrirmyndin að þessari handbók eru leiðbeiningar sem danska samkeppnis- og neytendastofnunin, Konkurrence- og Forbrugerstyrelsen, gaf út í desember 2014 undir heitinu Informationsaktiviteter i brancheforenininger og fylgir þessi handbók  uppbyggingu dönsku leiðbeininganna að töluverðu leyti. Að því er efnið sjálft varðar, er hér ýmsu bætt við sem ekki er í dönsku leiðbeiningunum, enda þótt kjarninn byggi á efni dönsku fyrirmyndarinnar. Mikilvægur hluti handbókarinnar eru dæmi úr samkeppnislagaframkvæmd sem skýra efni og beitingu samkeppnisreglnanna um upplýsingamiðlun fyrirtækjasamtaka. Dæmin eru einkum frá Danmörku og Íslandi en einnig eru tekin dæmi frá hinum Norðurlöndunum og frá framkvæmdastjórn og dómstólum Evrópusambandsins.

En getur handbók sem byggir á dönsku efni og evrópskum úrskurðum haft eitthvað leiðsagnargildi fyrir íslensk fyrirtæki, kann einhver að spyrja. Því er til að svara, að dönsk samkeppnisyfirvöld framfylgja samkeppnisreglum sem eru sama efnis og íslenskar samkeppnisreglur að því er varðar ólögmætt samráð á markaði og hið sama á í raun við um samkeppnisreglur allra ríkja á EES svæðinu sem og samkeppnisreglur EES samningsins og Evrópusambandsins.

Það að ákvæði hafi sama orðalag útilokar að sönnu ekki að samkeppnisyfirvöld og dómstólar í einstaka EES ríkjum túlki reglurnar með mismunandi hætti og ljái þeim þannig í einhverjum atriðum annað inntak en þær hafa, t.d. hér á landi. Sú skylda hvílir hins vegar á aðildarríkjum Evrópusambandsins, og EFTA ríkjunum sem eru aðilar að EES samningnum, að fylgja dómafordæmum dómstóla Evrópusambandsins og EFTA dómstólsins í samkeppnismálum. Í ljósi þess, og vegna víðtæks og virks samráðsnets allra samkeppnisstofnana á EES svæðinu (European Competition Network, ECN), má fullyrða að túlkun og beiting samkeppnisreglna innan alls EES svæðisins að því er varðar ólögmætt samráð sé í öllum verulegum atriðum með sama hætti. Að auki hafa norræn samkeppnisyfirvöld með sér víðtækt samstarf og fylgjast vel með samkeppnislagaframkvæmd hjá hvert öðru.

Uppbygging handbókarinnar

Í fyrsta efniskafla handbókarinnar, á eftir þessum inngangi, er gerð stutt grein fyrir efni þeirra ákvæða sem helst reynir á í samkeppnislögum þegar samtök fyrirtækja miðla upplýsingum og gögnum til meðlima sinna og þegar fyrirtæki skiptast á upplýsingum. Um leið er komið inn á helstu meginreglur sem hafa mótast í dómaframkvæmd um túlkun og beitingu þessara ákvæða. Síðan fylgja sex kaflar þar sem fjallað er um jafnmarga flokka eða tegundir upplýsinga á vegum  fyrirtækjasamtaka og lýst er þeim samkeppnislegu atriðum sem þarf að hafa í huga í hverju sinni til að forðast samkeppnislagabrot. Í síðasta kaflanum er síðan farið nokkrum orðum um það sem ber að varast á fundum á vegum fyrirtækjasamtaka en mörg dæmi eru um að yfirlýsingar og umræður á slíkum fundum, sem oft eru óundirbúin viðbrögð við tilteknu ástandi eða atburðum á markaði, hafi orðið tilefni til afskipta af hálfu samkeppnisyfirvalda.

Viðauki

Handbók þessari fylgir viðauki með tveimur köflum úr leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum sem birtust í íslenskri útgáfu í EES viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins 12. desember 2013. Fyrri kaflinn fjallar um helstu sjónarmið sem gilda um mat sem fram fer á grundvelli 53. gr. EES samningsins en sá síðari er um almenn sjónarmið sem ráða mati á afleiðingum upplýsingaskipta að því er varðar samkeppni, eins og segir í heiti kaflans. Fyrir utan mismunandi efnistök í handbókinni og leiðbeiningunum er ýmislegt í handbókinni sem ekki er í leiðbeiningunum og öfugt. Sameiginlega gefa handbókin og viðaukin því góða heildarmynd af því sem fyrirtækjasamtök, og fyrirtæki, þurfa að huga að í samskiptum sínum við aðildarfyrirtæki og keppinauta á markaði.

Hugtakið fyrirtækjasamtök

Í samkeppnislögum falla fyrirtækjasamtök undir hugtakið fyrirtæki sem er skilgreint mjög vítt í samkeppnisrétti. Undir hugtakið fyrirtækjasamtök falla síðan bæði fyrirtæki sem stunda hefðbundinn atvinnurekstur en eru í eigu annarra fyrirtækja, (eins og t.d. Reiknistofa bankanna hf.), og samtök fyrirtækja sem hafa ófjárhagslegan tilgang. Slík samtök eru nefnd trade associations á ensku og brancheforeninger á dönsku. Efnistök í þessari handbók taka mið af starfsemi samtaka af síðarnefndu gerðinni. Engu að síður ættu öll fyrirtæki, þ. á m. fyrirtæki í sameiginlegri eigu annarra fyrirtækja sem óhjákvæmilega þurfa að eiga samskipti við eigendur sína, að geta haft mikið gagn af þessari handbók enda eiga sömu samkeppnislegu meginreglurnar við um alla upplýsingamiðlun á markaði, án tillits til þess hver á í hlut.

Eggert B. Ólafsson

Samtök ferðaþjónustunnar ljúka samráðsmáli með sátt

Eggert B. Ólafsson

Föstudaginn 18.  september  2015  gerðu Samtök ferðaþjónustunnar, SAF,  sátt við Samkeppniseftirlitið vegna brota á 12. gr., sbr. 10. gr., samkeppnislaga. Með sáttinni viðurkenna SAF ólögmætt samráð innan samtakanna og fallast á að greiða 45 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Samhliða því fellst SAF einnig á að gera frekari breytingar á starfsemi sinni til bóta fyrir samkeppni á vettvangi ferðaþjónustu.

Sjá meira.