Category Archives: Greinar

Samrunaeftirlit SE er ekki bundið víð íslensk fyrirtæki.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í samrunamáli tveggja erlendra félaga AerCap Holdings N.V. og International Lease Finance Corporation frá  10. febrúar  2014  minnir á að það er ekki skilyrði fyrir lögsögu íslenskra samkeppnisyfirvalda í samrunamálum að eitt eða fleiri íslensk fyrirtæki eigi í hlut. Skilyrðin fyrir lögsögu Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum eru þrjú, tvö „jákvæð“ skilyrði og eitt „neikvætt“. Jákvæðu skilyrðin eru (i) að  sameignleg velta viðkomandi fyrirtækja á Íslandi nái einum milljarði króna og (ii) samruninn hafi samkeppnisleg áhrif á Íslandi í skilningi 17. gr. samkeppnislaga. „Neikvæða“ skilyrðið er að framkvæmdastjórn ESB eigi ekki lögsögu um samrunann því lögsaga ESB útilokar lögsögu Samkeppniseftirlitsins, nema til framvísunar máls komi.  Sama gildir hafi Eftirlitsstofnun EFTA lögsögu. Það er þó aðeins fræðilegur möguleiki að samrunamál geti komið til kasta ESA. Sá fræðilegi möguleiki kan hins vegar að verða raunhæfur núna að því er flugið varðar eftir þann ævintýraleaga vöxt sem hefur verið á íslensku flugfélögunum síðutsu misseri.

Fyrrgreind ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er áminning um að full ástæða er fyrir íslensk fyrirtæki sem eiga í beinni eða óbeinni samkeppni við erlend fyrirtæki á íslenskum markaði eða sem selja/kaupa vörur eða þjónustu af erlendum fyrirtækjum hér á landi, til að fylgjast með erlendum samrunum og vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því ef samruni á sér stað á milli tveggja erlendra fyrirtækja sem íslenska fyrirtækið telur að geti hindrað samkeppni hér á landi. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú að eftirlit með samrunum á vettvangi ESB (og eftir atvikum á grundvelli EES samningsins) tekur að jafnaði aðeins til „mega“ samruna, þar sem heimsvelta þarf annað hvort að ná EUR 5000 milljónum, (jafngildi ríflega 750 milljarða króna) eða EUR 2.500 milljónum, (jafngildi 375 milljarða króna). Það fer eftir því hvernig veltan dreifist á milli landa og fyrirtækja hvort viðmiðið framkallar tilkynningarskyldu. Í raun geta því allir samrunar í heiminum sem eru undir 375 milljörðum króna heimsveltu og jafnvel margir sem eru undir 750 milljarða veltumörkunum, fallið undir lögsögu Samkeppniseftirlitsins ef viðkomandi samruni getur haft þau áhrif hér landi að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Dæmi: Tvö stór erlend fyrirtæki selja vörur sínar (samkeppnisvörur – tvö mismunandi vörumerki) til Íslands í gegnum tvo íslenska söluaðila. Markaðshlutdeild þessara íslensku söluaðila  er samtals um 70%. Við sameiningu erlendu fyrirtækjanna gæti verið hætta á að öðrum íslenska aðilanum yrði falið að annast söluna á Íslandi að öllu leyti og markaðsráðandi staða yrði til. Ef Samkeppniseftirlitið vissi af þessari hættu gæti það á grundvelli  gildissviðs íslenskra samkeppnislaga að því er varðar samrunamál sett það skilyrði fyrir að leyfa samrunann að á Íslandi yrði einum og sama aðilanum ekki falið að selja bæði vörumerkin. Samkeppnisráðgjöf, júní 2014

Fyrirtæki starfandi undir skilyrðum Samkeppniseftirlitsins

Sífellt fjölgar þeim fyrirtækjum og fyrirtækjasamtökum sem starfa undir sérstökum skilyrðum settum af Samkeppniseftirlitinu. Í vissum skilningi starfa öll fyrirtæki undir skilyrðum í samkeppnislegu tilliti, það er að segja, þeim ber að virða samkeppnislög. Sérstök skilyrði – skilyrði umfram það sem leiðir beint af samkeppnislögunum – koma hins vegar til sögunnar í samrunamálum, samkeppnisbrotamálum og undanþágumálum sem lokið er á grundvelli sáttar við Samkeppniseftirlitið.

Nýjasta samrunamálið þar sem samruni var leyfður með skilyrðum er samruni Eldeyjar TLh á Arcanum ferðaþjónustu ehf. (Ákvörðun SE nr. 44/2017). Hin samkeppnislegu vandkvæði þess samruna stöfuðu einkum af óbeinni aðkomu Íslandsbanka að samrunanum en Eldey er fjárfestingarsjóður í eignastýringu hjá Íslandssjóðum. Eldey einbeitir sér að fjárfestingum í ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir fagfjárfesta í viðskiptum við einkabankaþjónustu Íslandsbanka. Skilyrðin sem Samkeppniseftirlitið setti samrunanum lúta að þremur þáttum: (i) sjálfstæði Arcanum gagnvart Íslandsbanka, (ii) óhæði stjórnarmanna Arcanum að því er varðar keppinauta og (iii) að samkeppni á þeim mörkuðum sem Arcanum starfar sé ekki raskað ekki upplýsingamiðlun til hluthafa í Eldey sem einnig eiga hlut í keppinautum Eldeyjar. Athyglisvert er að óhæðisskilyrðið tekur ekki til mikilvægra viðskiptamanna Arcanum.

Sjá:

http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2017/Akvordun_44_2017_Breyting-a-yfirradum-Arcanum-ferdathjonustu-ehf.pdf

Nýjasta samkeppnisbrotamálið þar sem Samkeppniseftirlitið setti hinum brotlega skilyrði er mál Félags fasteignasala (FF) vegna ólögmæts verðsamráðs,(Ákvörðun SE nr. 43/2017). Auk greiðslu sektar uppá 6 milljónir króna, skuldbatt FF sig til að sjá til þess að í starfsemi félagsins væri stuðlað að viðskiptalegu sjálfstæði aðildarfyrirtækjanna (en ekki hinu gagnstæða) þannig að samkeppni verði ekki raskað og til að leggja sérstaka áherslu á að fræða fasteignasala um samkeppnismál. Þá skyldu starfsreglur stjórnar FF og þeirra nefnda og ráða sem starfa innan félagsins taka sérstakt mið af ákvæðum og markmiðum samkeppnislaga og tryggja að samstarf aðildarfyrirtækja félagsins verði ávallt samþýðanlegt samkeppnislögum. Fleira er síðan tekið fram í skilyrðunum sem lýtur í raun ekki að öðru en að brýna fyrir FF að virða samkeppnisreglur og að útskýra  hvers konar hegðun samrýmist ekki samkeppnislögum, t.d. megi ekki miðla viðkvæmum viðskiptalegum upplýsingum til fasteignasala. Loks er kveðið á um það í sáttinni að FF skuli koma sér upp samkeppnisréttaráætlun, (innra samkeppniseftirlit).

Sjá:

http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2017/Akvordun_43_2017_Adgerdir-til-thess-ad-baeta-samkeppni-i-fasteignasolu.pdf

Undanþágumál eru hér þau mál nefnd þar sem Samkeppniseftirlitið veitir fyrirtækjum undanþágu fyrir tiltekið samstarf enda þótt fyrirkomulag og andlag samstarfsins geti í sjálfu sér takmarkað samkeppni. Skilyrði undaþágu eru hins vegar ströng og skilyrðið sem erfiðast reynist yfirleitt að uppfylla er að tryggt sé að neytendur fái sanngjarna hlutdeid í þeim ávinningi sem samstarfarið hefur í för með sér.

Nýjasta undanþágumálið þar sem Samkeppniseftirlitið veitti undanþágu frá banni 10. gr samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samningum, er mál sem varðar sameiginlegt seðlaver viðskiptabankanna þriggja. (Ákvörðun SE nr. 46/2017).

Athyglisverðasta skilyrðið af fjölmörgum sem viðskiptabankarnir gengust undir samkvæmt sáttinni er tiltekin hagræðingarkrafa til rekstrar seðlaversins. Skal tryggt að heildarkostnaður hvert ár, að undanskildum árunum 2018 og 2019, verði ekki umfram 75% af samanlögðum heildarkostnaði við rekstur seðlavers bankanna þriggja á árinu 2016. Þá lýsa bankarnir  því yfir að þeir muni leitast við að koma því til leiðar að viðskiptavinir þeirra fái notið hlutdeildar í þeirri hagræðingu sem stofnun og rekstur félagsins hefur í för með sér.  Til þess að það nái fram að ganga skuldbinda bankarnir sig m.a. til að innleiða ekki nýjar þóknanir í tengslum við seðlaþjónustu.

Sjá:

http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2017/Akvordun_46_2017_Undanthaga-vegna-stofnunar-og-rekstur4s-sameiginlegs-sedlavers.pdf

Í gegnum tíðina, og þó einkum eftir hrunið 2008, eru samkeppnismálin orðin æði mörg sem hefur lokið með sátt við Samkeppniseftirlitið á grundvelli skuldbidinga af hálfu viðkomandi fyrirtækja sem ætlað er að tryggja samkeppni sem ella myndi skerðast. Sú spurning hlýtur að vakna hvernig tryggja megi að skilyrði séu haldin, ekki síst þegar þau eru ótímabundin og hætta er á að þau gleymist t.d. vegna mannabreytinga hjá viðkomandi fyrirtækjum. Skilyrði sem ekki er farið eftir eru verri en engin skilyrði því þá þverr virðing fyrir samkeppniseftirliti og samkeppnislögum.

Í mörgum málum sem lokið er með sátt er óháðum eftirlitsaðila, eftir atvikum innri endurskoðun, þegar fjármalfyrirtæki eiga í hlut, falið að fylgjast með framkvæmd sátta og skila Samkeppniseftirlitinu reglulega skýrslu um eftirlitið. En í mörgum málum er svo ekki, sbr. mál Arcanum ferðaþjónustu og Félags fasteignasala sem getið er hér að framan. Töluverður fjöldi fyrirtækja á hinum ýmsu mörkuðum starfa undir samkeppnisskilyrðum án þess að fylgst sé með því með formbundnum hætti hvort þau haldi skilyrðin, hvorki af óháðum eftirlitsaðilum né Samkeppniseftirlitinu sjálfu, að því er berst verður séð. Öðrum en neytendum og keppinautum viðkomandi fyrirtækja er því ekki til að dreifa sem “eftirlitsaðilum” með því að viðkomandi fyrirtæki haldi þau skilyrði sem Samkeppniseftirlitið hefur sett þeim, t.d. í kjölfar samruna eða samkeppnislagabrots.

Enginn listi er til yfir þau mál sem lokið hefur með sátt og setningu skilyrða af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Væri það mjög til bóta ef Samkeppniseftirlitið gerði slíkan lista og héldi honum við. Það myndi auðvelda neytendum og keppinautum fyrirtækja, sem starfa undir skilyrðum, að fylgjast með því hvort skilyrði eru haldin og veita þeim þar með samkeppnislegt aðhald.

Ófullnægjandi eftirlit með samkeppnisbrotum

Ófullnægjandi eftirlit með samkeppnisreglum þýðir að möguleikar fyrirtækja og neytenda til að stefna samkeppnisbrotamálum beint fyrir dómstóla verða mikilvægari.

Samkeppniseftirlitið hefur nýlega sagt frá því að það geti ekki sinnt sem skyldi kvörtunum sem því berast vegna meintra samkeppnisbrota sökum mikils álags við afgreiðslu samrunamála. http://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/nr/2959.

Það er reyndar ekki nýtt að Samkeppniseftirlitið taki kvartanir ekki til efnislegrar umfjöllunar eða setji mál á ís í skjóli heimildar til að forgangsraða málum. Undirliggjandi ástæða þessa er án efa fyrst og fremst fjársvelti stofnunarinnar um langt skeið. Dráttur á að taka samkeppnisbrotamál til meðferðar getur verið jafnslæmur og frávísun (án þess að efnisleg afstaða sé tekin til kæruefnis) þar sem löngum málsmeðferðartíma fylgir sú að hætta að loks þegar Samkeppniseftirlitið kemur með niðurstöðu, hafi samkeppnisbrot þegar valdið neytendum og fyrirtækjum miklum skaða og jafnvel hrakið keppinauta af markaði. Þetta ástand hefur varað lengi.

Góður kostur að höfða mál beint fyrir íslenskum dómstólum og jafnvel einangra málatilbúnað við brot á samkeppnisreglum EES samningsins.

Ef gögn eru fyrir hendi eða tiltæk og málsatvik ljós eða með þeim hætti að þau verði sönnuð í dómsmáli, kann það að vera góður kostur að stefna samkeppnisbrotamali beint fyrir dómstól í stað þess að kæra fyrst til samkeppnisyfirvalda.

Samkeppnisreglur EES samningsins eru strangar bæði að því er varðar samninga og samstilltar aðgerðir sem hamla samkeppni (53. gr. ESS) og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, (54. gr. EES). Gildissvið (lögsaga)samkeppnisreglna EES-samningsins er auk þess vítt og íslenskir dómstólar eru skuldbundnir til að beita þeim geti viðkomandi aðgerð, athöfn eða athafnaleysi haft áhrif á viðskipti milli EES ríkja. Rúm túlkun á skilyrðinu um “áhrif á viðskipti milli EES-ríkja” þýðir að í raun taka samkeppnisreglur EES samningsins til nær allra meiriháttar samkeppnislagabrota sem framin eru hér á landi.

Hvað vinnst með því að stefna máli beint fyrir dómstóla?

  • Löng og tafsöm meðferð mála á stjórnsýslustigi fyrir Samkeppniseftirlitinu og áfrýjunarnefnd samkeppnismála er klippt út.
  • Samkeppniseftirlitið getur ekki úrskurðað um skaðabætur. Fyrir dómstól er hins vegar unnt að fá staðfestingu á að samkeppnislagbrot hafi verið framið og dóm um skaðabætur í einu og sama málinu.
  • Málarekstur fyrir dómstól og öflun álita frá ESA eða EFTA dómstólnum myndi að jafnaði taka mun skemmri tíma en að byrja mál hjá Samkeppniseftirlitinu og fara með það síðan fyrir dómstóla til að heimta bætur. Eftirlitsstofnun EFTA sem og EFTA dómstóllinn eru fljót að skila álitum til dómstóla – bindandi í raun – um efni og gildissvið 53. gr. og 54. gr. ESS samningsins og hvernig ákvæðin horfa við þeim spurningum sem bornar eru undir EES stofnanirnar.
  • Einfaldari málatilbúnaður og málarekstur. Með því að einskorða mál við samkeppnisreglur  EES samningsins er komið í veg fyrir að mál snúist hvort tveggja um íslenskan og evrópskan samkeppnisrétt og samspil samkeppnisreglna þessara tveggja lagakerfa með ófyrirséðum flækjum.  Það er hins vegar ekki hægt að komast hjá flækjum með því því að einskorða mál við íslenskar samkeppnisreglur því þær evrópsku gilda framar ef þær íslensku stangast á við þær.

Samkvæmt 28.gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið að eigin frumkvæði komið að skriflegum athugasemdum í dómsmáli vegna beitingar 53. og 54. gr. EES-samningsins. Hafi dómstóll hins vegar ákveðið að leita álits EFTA dómstólsins um efni þessara ákvæða og um hvernig beiting þeirra horfir við málsatvikum, fæst „milliliðalaust“ álit þeirrar stofnunar sem hefur síðasta orðið um efni EES reglna. Það skapar réttaröryggi og álit Samkeppniseftirlitsins væri óþarft.

Mál fyrir dómstólum sem byggir eingöngu á að 53. og eða 54. gr. EES samningsins hafi verið brotin, gefur því kost á skjótari, skýrari og einfaldari málsmeðferðmeðferð og beinum aðgangi að hinni endanlegu réttarheimild, EFTA dómstólnum.

Það kann því að vera ótvírætt þess virði fyrir hvern þann þann sem telur sig vera fórnarlamb samkeppnislagabrots að leggja mat á hvort háttsemi af hálfu keppinauts eða aðila sem hann er háður um viðskipti, geti falið í sér brot á samkeppnisreglum EES samningsins.

 

 

 

 

Samráð og staðlar og staðlaðir skilmálar

Johansen hús Reyðarfirði

Skilgreining: Staðlaðir samningsskilmálar og staðlar settir af fyrirtækjasamtökum

Staðlaðir samningsskilmálar eru skilmálar sem aðildarfyrirtækin geta notað í kaup- og sölusamningum fyrir ábyrgðir, skilgreiningu á göllum, gæðakröfum, þjónustu- og afhendingarskilmálum, fyrir skilarétt, takmörk ábyrgðar, framleiðandaábyrgð o.s.frv. Stundum eru nær öll ákvæði tiltekinnar samningstegundar stöðluð, í öðrum tilvikum eru aðeins nokkur þeirra stöðluð. Staðlar fyrirtækjasamtaka eru staðlar eða samningsform sem notuð eru í viðkomandi grein, t.d. um tæknilegar kröfur og gæðakröfur sem  framleiðsla, framleiðsluferlar eða þjónusta verður að uppfylla.

Staðlaðir samningsskilmálar

Í mörgum atvinnugreinum nota fyrirtæki staðlaða samningsskilmála í viðskiptasamningum sínum sem samtök þeirra semja. Staðlaðir samningsskilmálar geta bæði lækkað umsýslukostnað/viðskiptakostnað hjá fyrirtækjum og auðveldað viðskiptavinum að bera saman kjör. Staðlaðir samningsskilmálar geta einnig auðveldað fyrirtækjum að skipta um birgja.

Neikvæða hliðin á stöðluðum samningsskilmálum er að ekki verður um samkeppni að ræða á milli aðildarfyrirtækjanna um þau atriði sem staðlaður samningsskilmáli tekur til og þannig fækkar samkeppnisflötum á milli aðildarfyrirtækjanna. Slík samkeppnistakmörkun getur verið í andstöðu við samkeppnislög.

Það er háð mati í hverju tilviki hvort staðlað samningsákvæði er löglegt eða ekki. Stöðluð samningsákvæði geta takmarkað samkeppni ef þau steypa mikilvægum samkeppnisforsendum í eitt mót. Þetta gildir einkum um verð en aðrir staðlaðir samningsskilmálar geta einnig haft neikvæð áhrif á samkeppni. Þegar möguleikinn á verðsamkeppni er takmarkaður er það oft svo að aðrar samkeppnisforsendur fá aukið vægi. Ef staðall leiðir til einhæfara vöruúrvals og minni nýsköpunar kann það að fela í sér samkeppnistakmörkun.

Enda þótt talið verði að staðlað samningsákvæði takmarki samkeppni þarf það ekki að þýða að ekki megi nota það. Hafi samningsákvæðið ekki að markmiði að takmarka samkeppni, (sbr. kafla 2.1 að framan), og uppfylli það skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt 15 gr. samkeppnislaga, að mati Samkeppniseftirlitsins, þ. á m. skilyrðið um að neytendur fái sanngjarna hlutdeild í ávinninginum sem af notkun skilmálans leiðir, myndi notkun hans, á grundvelli slíkrar undanþágu, vera lögleg. (Sjá kafla 2.2. að framan).

 Samkeppnisforsendum steypt í sama mót

Ef staðlaður samningsskilmáli varðar samkeppnisforsendu sem er mikilvæg á viðkomandi markaði, eru líkur á að skilmálinn brjóti gegn 10. gr. samkeppnislaganna. Að jafnaði myndu skilmálar sem hafa áhrif á viðskiptakjör, t.d. ákvæði um leiðbeinandi verð, hámark afslátta, hvaða tegundir afslátta megi veita o.s.frv., teljast varða mikilvæga samkeppnisforsendu.

Staðlaðir samningsskilmálar sem hafa óbein áhrif á verð eins og ákvæði sem varða fresti, afhendingarskilmála, skilgreiningu á gæðum og þjónustu geta einnig verið ólögleg og skiptir þá ekki máli þótt það sé orðað svo af hálfu viðkomandi samtaka í skilaboðum til meðlima sinna, að ákvæðunum sé einungis ætlað að vera leiðbeinandi. Ef talið verður að slík ákvæði stýri markaðshegðun eða að þau takmarki svigrúm og hvata til að keppa í gæðum, kunna þau að stangast á við 10. gr. samkeppnislaga. Eins og endranær kann þó að vera að slík ákvæði, eftir atvikum m.a. vegna markaðsaðstæðna, uppfylli öll fjögur skilyrði 15. gr. samkeppnislaganna.

 Fyrirtækjasamtök þurfa því að gæta að því að samþykkja ekki stöðluð viðskiptakjör sem varða mikilvægar samkeppnisforsendur á viðkomandi markaði eða staðlaða samningsskilmála sem þrengja svigrúmið til samkeppni á grundvelli eins eða fleiri samkeppnisforsendna.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækjasamtök setji almenna samningsskilmála svo framarlega sem um hreinan samningsramma sé að ræða sem hefur ekki áhrif á mikilvægar samkeppnisforsendur. Þannig er heimilt að hanna rammasamning eða samningsform þar sem engar stærðir eða tölur eru settar inn fyrirfram heldur geri viðkomandi aðildarfyrirtæki það hvert fyrir sig með hliðsjón af fjárhagslegri og samkeppnislegri stöðu sinni á viðkomandi markaði

Dæmi: Vafasamt ákvæði um takmörkun ábyrgðar í stöðluðu tilboðsformi

Samtök malbiksframleiðenda í Danmörku létu semja staðlaðan fyrirvara til notkunar í tilboðum til sveitarfélaga í viðhaldsverkefni á umferðarþungum götum og vegum. Samkvæmt fyrirvaranum, sem fyrirtækjum innan samtakanna var í sjálfsvald sett að nota, yrði verktakinn ekki gerður ábyrgur fyrir ófyrirsjáanlegu tjóni sem mætti rekja til undirlags vegar sem verktakinn hefði ekki haft neitt að segja um hvert væri. Mat danska samkeppniseftirlitsins var að ekki væri unnt að útiloka að ákvæðið hefði neikvæð áhrif á samkeppni ef notkun fyrirvarans yrði útbreidd meðal verktaka. Skilmálinn væri tilkominn vegna áhættu sem tengdist útboðum í viðhaldsverkefni fyrir sveitarfélög vegna þess að erfitt væri að sjá fyrir umferðarálag og þar með hver viðhaldskostnaðurinn yrði á samningstímanum. Kostnaður í tengslum við ráðstafanir vegna slíkrar áhættu yrði hluti af verðútreikningum og staðlaður fyrirvari um takmörkun ábyrgðar gæti haft samræmingaráhrif á verð hjá keppinautunum. Í áliti sínu hafði samkeppnisstofnunin í huga að bæði samþjöppun og gagnsæi á markaðnum var mikið.[1]

 

Í leiðbeiningum ESA um lárétta samstarfssamninga segir að hafi staðlaðir samningsskilmálar hvorki (i) bein né óbein áhrif á verð, (ii) ekki sé skylt að nota þá í viðkomandi grein, (iii) allir innan greinarinnar hafi átt möguleika á að taka þátt í  ákvörðunum um  efni skilmálanna og (iv) megi  allir nota skilmálanna, sé ólíklegt að slíkir skilmálar verði taldir samkeppnistakmarkandi. Í hverju tilviki þarf þó skoða skilmálana með hliðsjón af öllum aðstæðum, þ.á m. með hliðsjón af  markaðsgerð. Í leiðbeiningunum segir einnig að staðlaðir skilmálar sem hafa að geyma ákvæði sem geti haft neikvæð áhrif á verðsamkeppni (t.d skilyrði um leyfilegar tegundir afslátta) yrðu að líkindum taldir samkeppnishamlandi. Í leiðbeiningum ESA eru jafnframt nefnd tvö tilvik þar sem gaumgæfa  þarf aðstæður áður en hægt er að skera úr um hvort samkeppnishamlandi áhrif staðlaðra ákvæða eru skaðleg í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES samningsins, (10. gr. samkeppnislaganna). Fyrra tilvikið varðar staðlaða skilmála sem hafa takmarkandi áhrif á vöruúrval og nýsköpun. Siðara dæmið varðar það þegar hið fasta eða staðlaða samningsákvæði er ráðandi þáttur í viðskiptunum og er því de facto ófrávíkjanlegt skilyrði, ætli  fyrirtæki sér að  starfa á viðkomandi markaði. Slíkt  de facto  skilyrði gætu t.d. falist  í því að í staðli er ákveðið hvað telst vera öruggt greiðslukerfi fyrir netverslun, skilyrðum um vörulýsingar eða reglur um skilarétt.

 

Dæmi: Stöðluð samningsskilyrði sem myndu vera lögleg

Samtök raforkudreifenda innleiða valkvæða skilmála sem ætlaðir eru til nota við sölu á raforku. Þegar skilmálarnir eru samdir er þess gætt að allir hagsmunaaðilar geti fylgst með og haft áhrif á efni þeirra og fyrirtækjum sé ekki mismunað. Skilmálarnir taka til hlutlausra atriða eins og tilgreiningar á notkunarstað, afhendingarstað og afhendingarspennu, auk ákvæða um afhendingaröryggi og aðferðir við uppgjör. Skilmálarnir taka ekki til verðlagningar að neinu leyti, þ.e. í þeim var hvorki að finna ákvæði um leiðbeinandi verð né önnur ákvæði um verðlagningu. Öllum fyrirtækjum í greininni er í sjálfsvald sett hvort og hvernig þau nota skilmálana. Það er ólíklegt að stöðluð samningsskilyrði af framangreindum toga yrðu talin hafa neikvæð áhrif á verð, gæði og vöruúrval.[2]

 

Kostir staðlaðra ákvæða

Það er oft unnt að færa góð rök fyrir því að leyfa beri staðlaða skilmála enda þótt þeir í sjálfu sér minnki svigrúmið til samkeppni á milli fyrirtækja og séu þannig samkeppnistakmarkandi. Stöðlun skilmála getur leitt til aukinnar hagkvæmni sem kemur neytendum til góða. Þeir geta auðveldað aðgang að markaði, þeir geta auðveldað neytendum að gera samanburð og staðlaðir skilmálar geta auðveldað neytendum að skipta um þjónustuaðila. Allt þetta getur haft hagkvæmni í för með sér og skilað neytendum beinum eða óbeinum ávinningi.

 Það er er hins vegar svo að bæði líkurnar á samkeppnishamlandi áhrifum og líkurnar á jákvæðum hagkvæmnisáhrifum af notkun staðlaðra skilmála aukast með aukinni markaðshlutdeild fyrirtækjanna sem nota skilmálana. Af þessum sökum er ekki unnt ákvarða nein almenn mörk, öryggismörk (e. safe harbour) fyrir notkun staðlaðra samningsákvæða. Því verður að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvort og þá hvaða samkeppnistakmörkun geti fylgt stöðluðum samningsákvæðum og, sé skilmáli metin samkeppnistakmarkandi, hvort hagur neytenda af notkun skilmálans vegur þyngra en hinn samkeppnislegi annmarki.

Staðlar settir af atvinnugreinasamtökum

 Það er almennt ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækjasamtök taki þátt í því með meðlimum sínum að innleiða staðla fyrir atvinnugreinina í þeim tilgangi að auka hagkvæmni og skilvirkni. Slíkir staðlar geta gert samkeppnina beittari og lækkað framleiðslu-, markaðs- og sölukostnað.

 Gerð og notkun staðla getur þó við ákveðnar aðstæður takmarkað samkeppni. Staðall sem innleiddur er af fyrirtækjasamtökum takmarkar samkeppni ef hann kemur í veg fyrir að aðildarfyrirtækin þrói eigin framleiðsluaðferðir eða selji aðrar vörur en þær sem eru í samræmi við kröfur staðalsins. Ef svo er, þá hamlar staðallinn vöruaðgreiningu (e. product differantiation), hvötum til nýsköpunar og fjölbreytni í vöruúrvali, auk þess sem slíkur staðall getur verið þröskuldur fyrir ný fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á markaðnum. Staðlar sem takmarka tækniþróun eru að jafnaði taldir brjóta gegn 10. gr. samkeppnislaganna.

 

Staðall sem uppfyllir eftirgreind skilyrði yrði að jafnaði ekki talinn takamarka samkeppni:

 

1.     Aðkoma að gerð staðals er opin öllum innan raða viðkomandi samtaka

2.     Ákvarðanir um efni staðalsins eru teknar með gagnsæjum hætti

3.     Fyrirtæki hafa val um það hvort þau noti staðalinn

4.     Þriðji aðili getur fengið aðild að staðli á sanngjörnum kjörum og án mismununar.

 

Á endanum ræðst það þó alltaf af mati á aðstæðum hverju sinni hvort staðall sem notaður er innan atvinnugreinar er löglegur eða ekki. Við það mat er fyrst litið til þess hvort hann takmarkar samkeppni, og ef svo er, hvort jákvæð áhrif hans á samkeppni vegi þyngra en samkeppnishamlandi áhrif hans. Sjá nánar um þetta það sem segir í kafla 2.2 að framan um undanþáguskilyrði 15. gr. samkeppnislaganna.

         [1] Álit dönsku samkeppnis- og neytendastofnunarinnar, 25. júní 2013, Vejledende udtalesle om brancheforeningens statistikker og standard forebehold

            [2] Leiðbeinandi reglur ESA um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum, mgr. 333.